Tölvurisinn Google segir að fjórar og hálf milljón manna hafi skrifað undir áskorun til þingmanna á Bandaríkjaþingi þess efnis að komið verði í veg fyrir að tvö frumvörp sem tryggja eiga hugverkarétt á Netinu verði samþykkt.
Það sem meira er undirskriftirnar söfnuðust á aðeins einum degi. Nokkrir vefir, þar á meðal alfræðivefurinn Wikipedia, lágu niðri í gær til að mótmæla frumvörpunum og á Google var búið að afmá merki tölvurisans af heimasíðunni.
Málið er mjög umdeilt en svo virðist sem þingmönnum sé að snúast hugur í málunum.
Átján öldungardeildarþingmenn sem áður höfðu lýst sig fylgjandi málinu skiptu um skoðun í gær og nú eru yfirlýstir stuðningsmenn þess 35, 18 eru á móti og 12 hafa sagst hallast að því að fella frumvörpin. 35 öldungardeildarþingmenn hafa þó enn ekki gert upp hug sinn og því er enn óljóst hvernig fer.
