Hlynur Morthens, markvörður Vals í N1-deild karla, varð fyrir ansi óvenjulegum meiðslum í síðasta leik liðsins, gegn Haukum í lok október. Sauma þurfti fjögur spor í aðra höndina eftir að greip á milli löngutangar og baugfingurs rifnaði – og það nokkuð illa.
„Ég bara rifnaði upp eftir eitt skotið," sagði Hlynur við Fréttablaðið í gær. „Þetta var stórundarlegt. Gylfi Gylfason [hornamaður í Haukum] kom inn og skaut að marki. Ég varði frá honum, tók upp boltann og kastaði fram á miðju. Þegar ég leit niður á höndina fossblæddi úr henni."
Hlynur þurfti að hætta að spila og fór upp á slysadeild eftir leikinn þar sem saumuð voru fjögur spor til að loka skurðinum.
„Læknirinn sem saumaði mig saman sagði að þetta væri nokkuð ljótt sár og á mjög erfiðum stað. Þetta fór ansi djúpt og þetta er auðvitað sérstaklega slæmt fyrir handboltamarkvörð," sagði Hlynur sem hefur aldrei lent í öðru eins.
„Ég hef ekki einu sinni heyrt um svona lagað áður. Ég veit í raun ekki hvað gerðist því ég fann ekki fyrir neinu. Líklega hafa fingurnir togast í sundur við það að verja boltann með þessum afleiðingum."
Hlynur losnaði við saumana í gær og í dag ætlar hann að láta reyna á sárið á æfingu. „Ég mun hitta sjúkraþjálfara sem ætlar að búa vel um höndina. Ef sárið opnast aftur þá verður bara að sauma aftur og sjá svo til."
Valur mætir HK í N1-deild karla á morgun og stefnir Hlynur á að spila – jafnvel með hanska ef nauðsyn krefur. „Ég held að það sé ekkert í reglunum sem bannar það. Þetta verður bara að koma í ljós."
Fossblæddi úr hendinni eftir varið skot
Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar

Mest lesið


„Hvað eru menn búnir að láta fífla sig út í?“
Íslenski boltinn



Vilja að Arna elti stóru systur: „Þær eru svakalegir íþróttamenn“
Íslenski boltinn

Með Man. Utd til Spánar en mega samt ekki spila
Enski boltinn




Bjarki um gjaldþrotið: „Þú ert niðurlægður á ákveðinn hátt“
Íslenski boltinn