Erum við of fá? Þorvaldur Gylfason skrifar 12. maí 2011 05:00 Oft heyri ég sagt, einkum eftir hrun, að Íslendingar séu of fáir til að geta haldið uppi hagsælu og heilbrigðu samfélagi. Þessi skoðun hvílir á tveim meginstoðum. Önnur er þessi: Lítið land líður fyrir skort á hæfum mannskap. En þá segi ég: Fólk er að jafnaði alls staðar eins að upplagi hvort heldur í litlum löndum eða stórum. Eini markverði munurinn á fólki frá einu landi til annars er sá, að sum lönd hlúa betur en önnur að sínu fólki. Málið snýst um þróunarstig, ekki fólksfjölda. Hráefnið er alls staðar eins, en það er af manna völdum mislangt komið á þroskabrautinni. Í Aþenu til forna bjuggu 200.000 manns og vegnaði vel. Feneyjar og Flórens blómstruðu á miðöldum með 115.000 og 70.000 íbúa. Fámenni: Böl eða blessun?Hin stoðin undir þeirri skoðun, að fámennið sé „mesta félagsböl Íslendinga,“ eins og Einar Benediktsson skáld komst að orði (Íslendingar voru þá um 100.000), er þessi: Fámennið kallar á innherjaviðskipti, klíkuskap og spillingu, því að allir þekkja alla og hylma yfir með öllum. Þessu er ég ekki heldur sammála. Í fámennum löndum ætti að veitast auðveldara en ella að reisa skorður við spillingu einmitt vegna þess, að allir vita, hvar skórinn kreppir. Hér er að ýmsu að hyggja, bæði rökum og reynslu. Löndum heimsins hefur fjölgað verulega síðustu ár, og þau eru nú að meðaltali fámennari en fyrr. Árin 1990-1994 urðu til tuttugu ný lönd við hrun Sovétríkjanna og af öðrum ástæðum. Smæðin gerir nú minna til en áður, þar eð greið millilandaviðskipti gera hverju landi kleift að bæta sér upp óhagræði smæðarinnar með viðskiptum við útlönd. Smæð, það er fólksfæð, hefur bæði kosti og galla. Grísku heimspekingarnir Platon og Aristóteles héldu fram kostunum. Platon færði rök að því, að réttur fjöldi heimila hvers lands væri 5.040; þetta er ekki prentvilla. Miðað við tíu manns í heimili (börn, gamalmenni, þræla og annað búalið) þýðir þetta um 50.000 manns í allt. Platon vildi, að fólksfjöldinn væri ekki meiri en landið þolir. Aristóteles taldi, að hvert ríki þyrfti að vera nógu lítið til að láta að stjórn og jafnframt nógu stórt til að geta staðið undir sér. Rök Aristótelesar hafa staðizt tímans tönn. Kjarni málsins er sá, að smálönd eru samheldnari en stór lönd og hafa því jafnan færri sérhagsmunahópa og að því skapi skárri stjórn á sínum málum í friði fyrir úlfúð og sundurþykkju, sem einkennir sum fjölmenn samfélög, þó ekki Japan. En smæðin kostar sitt, því að færri skattgreiðendur standa þá bak við fastakostnaðinn við opinbera þjónustu. Smálönd þurfa að bæta sér upp óhagræði smæðarinnar með skilvirkri hagstjórn og eru ólíklegri til að búa yfir nægum auði til að hafa ráð á góðri og óspilltri stjórnsýslu. Þannig getur smæð leitt af sér spillingu og einnig í gegnum fákeppni, klíkuskap og refsileysi í skjóli meðvirks ákæruvalds og dómskerfis. Auk þess eiga stjórnvöld í litlum löndum auðveldara með að halda fjölmiðlum í skefjum. Hagkvæmni stærðarinnar er þó ekki heldur einhlít, þar eð í stórum löndum geta stjórnvöld í krafti stærðarinnar stundum kreist meira út úr auðlindum lands og sjávar til að friðþægja bakhjarla sína og komast því upp með verri stjórnarhætti en ella. Af þessum rökum á báða bóga má ráða, að við þurfum að spyrja: Hvort vegur þyngra, kostir smæðarinnar eða gallarnir? Fegurð smæðarinnarHér koma reynslurökin til skjalanna. Rannsóknir sýna, að spilling er á heildina litið minni í litlum löndum en stórum, ef eitthvað er. Smæðin virðist efla aðhaldið að spillingaröflunum meira en hún ýtir undir spillinguna. Spilling er alvarlegt vandamál í Indlandi og Kína, tveim langfjölmennustu löndum heims. Rannsóknir sýna einnig, að litlum löndum vegnar að jafnaði betur en stórum í efnahagslegu tilliti. Kostir smæðarinnar yfirgnæfa gallana. Risunum tveim í Asíu fleygir samt fram. Ég gerði fyrir nokkrum árum eigin athugun á málinu og komst að sömu niðurstöðu og flestir aðrir. Einn lykillinn að velgengni smálandanna virðist vera, að þeim tekst oft að velta ýmsum fastakostnaði smæðarinnar yfir á herðar fjölmennari vinaríkja líkt og Íslendingar létu Atlantshafsbandalagsþjóðirnar kosta varnir Íslands í meira en 60 ár, þar til herinn hvarf á braut um árið gegn vilja íslenzkra stjórnvalda. Ef fólksfæð dregur úr spillingu og örvar hagvöxt, svo sem rannsóknir virðast benda til, bæta þau tíðindi horfur Íslands. Reynslan sýnir að auki, að minni spilling glæðir vöxtinn. Vandi Íslands er því ekki fólksfæðin, heldur spillingin auk annars. Það er gott, þar eð það er miklu hampaminna að uppræta spillinguna en margfalda fólksfjöldann. Við þurfum að snúast gegn spillingunni með hug og orði. Þess vegna lagði ég til hér í Fréttablaðinu 8. júlí 2010, að sérstök stofnun yrði sett á fót til að hamla spillingu á Íslandi líkt og gert var í Svíþjóð 2006, óspilltu landi að kalla. Nú leyfi ég mér að ítreka tillöguna. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Þorvaldur Gylfason Mest lesið Er leikskólinn ekki meira virði? Bryndís Björk Eyþórsdóttir Skoðun Sagan að endurtaka sig í beinni Ingibjörg Þóra Haraldsdóttir Skoðun Hvers virði eru vísindi? Heiða María Sigurðardóttir,Erna Magnúsdóttir Skoðun Hin heimtufreka kennarastétt Áslaug Pálsdóttir Ragnheiðardóttir Skoðun Halldór 25.01.2025 Halldór Þjóðarátak í umönnun eldra fólks Einar Magnússon ,Þráinn Þorvaldsson Skoðun Að hengja bakara fyrir smið Rakel Linda Kristjánsdóttir Skoðun Konungar markaðarins Eiríkur Ingi Magnússon Skoðun Hinn vandrataði vegur að starfslokum Ástríður Þórey Jónsdóttir Skoðun Þingmaðurinn og spillingin á Veðurstofunni Sigurgeir Bárðarson Skoðun
Oft heyri ég sagt, einkum eftir hrun, að Íslendingar séu of fáir til að geta haldið uppi hagsælu og heilbrigðu samfélagi. Þessi skoðun hvílir á tveim meginstoðum. Önnur er þessi: Lítið land líður fyrir skort á hæfum mannskap. En þá segi ég: Fólk er að jafnaði alls staðar eins að upplagi hvort heldur í litlum löndum eða stórum. Eini markverði munurinn á fólki frá einu landi til annars er sá, að sum lönd hlúa betur en önnur að sínu fólki. Málið snýst um þróunarstig, ekki fólksfjölda. Hráefnið er alls staðar eins, en það er af manna völdum mislangt komið á þroskabrautinni. Í Aþenu til forna bjuggu 200.000 manns og vegnaði vel. Feneyjar og Flórens blómstruðu á miðöldum með 115.000 og 70.000 íbúa. Fámenni: Böl eða blessun?Hin stoðin undir þeirri skoðun, að fámennið sé „mesta félagsböl Íslendinga,“ eins og Einar Benediktsson skáld komst að orði (Íslendingar voru þá um 100.000), er þessi: Fámennið kallar á innherjaviðskipti, klíkuskap og spillingu, því að allir þekkja alla og hylma yfir með öllum. Þessu er ég ekki heldur sammála. Í fámennum löndum ætti að veitast auðveldara en ella að reisa skorður við spillingu einmitt vegna þess, að allir vita, hvar skórinn kreppir. Hér er að ýmsu að hyggja, bæði rökum og reynslu. Löndum heimsins hefur fjölgað verulega síðustu ár, og þau eru nú að meðaltali fámennari en fyrr. Árin 1990-1994 urðu til tuttugu ný lönd við hrun Sovétríkjanna og af öðrum ástæðum. Smæðin gerir nú minna til en áður, þar eð greið millilandaviðskipti gera hverju landi kleift að bæta sér upp óhagræði smæðarinnar með viðskiptum við útlönd. Smæð, það er fólksfæð, hefur bæði kosti og galla. Grísku heimspekingarnir Platon og Aristóteles héldu fram kostunum. Platon færði rök að því, að réttur fjöldi heimila hvers lands væri 5.040; þetta er ekki prentvilla. Miðað við tíu manns í heimili (börn, gamalmenni, þræla og annað búalið) þýðir þetta um 50.000 manns í allt. Platon vildi, að fólksfjöldinn væri ekki meiri en landið þolir. Aristóteles taldi, að hvert ríki þyrfti að vera nógu lítið til að láta að stjórn og jafnframt nógu stórt til að geta staðið undir sér. Rök Aristótelesar hafa staðizt tímans tönn. Kjarni málsins er sá, að smálönd eru samheldnari en stór lönd og hafa því jafnan færri sérhagsmunahópa og að því skapi skárri stjórn á sínum málum í friði fyrir úlfúð og sundurþykkju, sem einkennir sum fjölmenn samfélög, þó ekki Japan. En smæðin kostar sitt, því að færri skattgreiðendur standa þá bak við fastakostnaðinn við opinbera þjónustu. Smálönd þurfa að bæta sér upp óhagræði smæðarinnar með skilvirkri hagstjórn og eru ólíklegri til að búa yfir nægum auði til að hafa ráð á góðri og óspilltri stjórnsýslu. Þannig getur smæð leitt af sér spillingu og einnig í gegnum fákeppni, klíkuskap og refsileysi í skjóli meðvirks ákæruvalds og dómskerfis. Auk þess eiga stjórnvöld í litlum löndum auðveldara með að halda fjölmiðlum í skefjum. Hagkvæmni stærðarinnar er þó ekki heldur einhlít, þar eð í stórum löndum geta stjórnvöld í krafti stærðarinnar stundum kreist meira út úr auðlindum lands og sjávar til að friðþægja bakhjarla sína og komast því upp með verri stjórnarhætti en ella. Af þessum rökum á báða bóga má ráða, að við þurfum að spyrja: Hvort vegur þyngra, kostir smæðarinnar eða gallarnir? Fegurð smæðarinnarHér koma reynslurökin til skjalanna. Rannsóknir sýna, að spilling er á heildina litið minni í litlum löndum en stórum, ef eitthvað er. Smæðin virðist efla aðhaldið að spillingaröflunum meira en hún ýtir undir spillinguna. Spilling er alvarlegt vandamál í Indlandi og Kína, tveim langfjölmennustu löndum heims. Rannsóknir sýna einnig, að litlum löndum vegnar að jafnaði betur en stórum í efnahagslegu tilliti. Kostir smæðarinnar yfirgnæfa gallana. Risunum tveim í Asíu fleygir samt fram. Ég gerði fyrir nokkrum árum eigin athugun á málinu og komst að sömu niðurstöðu og flestir aðrir. Einn lykillinn að velgengni smálandanna virðist vera, að þeim tekst oft að velta ýmsum fastakostnaði smæðarinnar yfir á herðar fjölmennari vinaríkja líkt og Íslendingar létu Atlantshafsbandalagsþjóðirnar kosta varnir Íslands í meira en 60 ár, þar til herinn hvarf á braut um árið gegn vilja íslenzkra stjórnvalda. Ef fólksfæð dregur úr spillingu og örvar hagvöxt, svo sem rannsóknir virðast benda til, bæta þau tíðindi horfur Íslands. Reynslan sýnir að auki, að minni spilling glæðir vöxtinn. Vandi Íslands er því ekki fólksfæðin, heldur spillingin auk annars. Það er gott, þar eð það er miklu hampaminna að uppræta spillinguna en margfalda fólksfjöldann. Við þurfum að snúast gegn spillingunni með hug og orði. Þess vegna lagði ég til hér í Fréttablaðinu 8. júlí 2010, að sérstök stofnun yrði sett á fót til að hamla spillingu á Íslandi líkt og gert var í Svíþjóð 2006, óspilltu landi að kalla. Nú leyfi ég mér að ítreka tillöguna.