Fótbolti

Zlatan Ibrahimovic: Er að gera út af við mig á öllum þessum hlaupum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Zlatan Ibrahimovic.
Zlatan Ibrahimovic. Mynd/AP
Zlatan Ibrahimovic kvartar mikið undan álaginu hjá AC Milan en þessi snjalli sænski knattspyrnumaður á mikinn þátt í frábæru gengi liðsins í ítölsku deildinni á þessu tímabili. Zlatan kom til AC Milan frá Barcelona fyrir tímabilið og hefur skorað 13 mörk og gefið 10 stoðsendingar í 22 leikjum í ítölsku A-deildinni í vetur. AC Milan er á toppnum.

„Ég er búinn að spila alla leiki fyrir utan einn bikarleik. Ég er þreyttur og er að gera út af við mig á öllum þessum hlaupum. Ég hleyp og hleyp án þess að það komi eitthvað út úr því," sagði Zlatan en hann hefur ekki skorað í síðustu tveimur deildarleikjum AC Milan.

„Ég verð að vera skynsamur. Ég er 29 ára en ekki 20 ára. Þegar maður verður eldri þá verður maður að hugsa meira um sig. Ég þarf að fara hlusta meira á líkamann minn," sagði Ibrahimovic.

„Á fyrsta árinu hjá Ajax hugsaði ég líka alltof lítið um matarrræðið, mætti á æfingu án þess að hafa borðað morgunmat, drakk síðan gos eftir æfingu og borðaði seint. Nú fæ ég mér alltaf makkarónur og kjötbollur eftir æfingar," sagði Zlatan í léttum tón.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×