Fótbolti

Wenger: Allir ellefu þurfa að eiga góðan leik

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Arsene Wenger og Pep Guardiola á hliðarlínunni í fyrra.
Arsene Wenger og Pep Guardiola á hliðarlínunni í fyrra. Mynd/Nordic Photos/Getty
Arsene Wenger, stjóri Arsenal, segir að allir sínir leikmenn þurfi að spila sinn besta leik ætli Arsenal að slá Barcelona út úr Meistaradeildinni. Liðin mætast í fyrri leiknum í sextán liða úrslitunum á heimavelli Arsenal í kvöld.

„Þegar þú mætir liði eins og Barcelona þá þurfa allir ellefu leikmenn þínir að eiga góðan leik. Það er líka mjög mikilvægt að við höfum allir fulla trú á verkefninu," sagði Arsene Wenger en Arsenal gerði 2-2 jafntefli í fyrri leiknum þegar liðin mættust í Meistaradeildinni í fyrra en tapaði seinni leiknum síðan 1-4 á Nou Camp.

„Það sem við höfum lært af leikjunum við þá í fyrra er að þeir fengu alltof mikla virðingu frá okkur fyrri leiknum og við vorum heppnir með að sleppa með það," sagði Wenger.

„Við erum ekki sigurstranglegra liðið en við getum unnið þetta. Við vitum það frá síðustu leiktíð að það er mikilvægast fyrir okkur að spila okkar leik. Barcelona er kannski betra lið en í fyrra en það erum við líka. Það gerir þennan leik enn áhugaverðari," sagði Wenger.

„Það tók Van Persie smá tíma að komast aftur í form en nú er hann að spila eins og hann gerir best. Liðið er í betra standi en í fyrra og Robin á mikinn þátt í því. Liðið hafði minna sjálfsrtraust fyrir ári síðan en við höfum þroskast mikið og við ráðum örugglega betur við að spila á móti þeim í dag. Við munum spila okkar leik og munum reyna að sækja á þá," sagði Wenger.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×