Gerard Pique, leikmaður Barcelona, segir að liðið ætli sér að slá Arsenal úr leik í 16-liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu.
Þessi lið mættust í fjórðungsúrslitum keppninnar í fyrra en liðin drógust nú saman í 16-liða úrslitunum. Þau áttust einnig við í úrslitaleik keppninnar árið 2006 en þá höfðu Börsungar betur, alveg eins og í fyrra.
„Þegar maður vinnur titla finnur maður fyrir mikilli hamingjutilfinningu og maður vill fá að upplifa þá tilfinningu aftur," sagði hann í samtali við enska fjölmiðla.
„Við erum því enn hungraðir í árangur eins og þegar við unnum Meistaradeildina fyrir tveimur árum. Við ætlum okkur að vinna Arsenal."
Pique var einn sex leikmanna Barcelona sem var í liði ársins hjá FIFA en liðsfélagi hans, Lionel Messi, var valinn besti leikmaður heims.