Fótbolti

Redknapp kemur Jordan til varnar

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / AFP
Harry Redknapp, stjóri Tottenham, segir að það sé ekki möguleiki að Joe Jordan, aðstoðarmaður sinn, hafi verið með niðrandi ummæli í garð Ítala í leiknum gegn AC Milan á þriðjudagskvöldið.

Umboðsmaður Gennaro Gattuso steig fram í gær og ásakaði Jordan um að hafa kallað Gattuso „fucking Italian bastard" í leiknum.

Eins og ítrekað hefur verið fjallað um lentu þeim Gattuso og Jordan tvívegis saman í leiknum. Í fyrra skiptið tók Gattuso hann hálstaki og í það síðara, eftir að leiknum lauk, skallaði hann Jordan.

Á Gattuso von á löngu banni fyrir þetta en hann hefur þó beðist afsökunar á hegðun sinni.

„Þetta er skýrt dæmi um það þegar einhver ákveður að ásaka einhvern um kynþáttaníð þegar hann vill draga athyglina frá því sem gerðist í raun og veru," sagði Redknapp við enska fjölmiðla.

„Joe er og hefur aldrei verið rasisti. Það er ekki möguleiki á því að Joe sagði þetta."

„Hann ber mikla virðingu fyrir Ítalíu og íbúum landsins. Hann á marga góða vini sem eru ítalskir, hann talar tungumálið og ber mikla virðingu fyrir lífsstíl Ítala," bætti Redknapp við en sjálfur lék Jordan á Ítalíu í þrjú ár snemma á níunda áratugnum, þar af í tvö ár með AC Milan.

„Það er mér algjörlega óskiljanlegt að einhver haldi þessu fram, sérstaklega eftir að Gattuso er búinn að biðjast afsökunar á sínu."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×