Ítalska liðið Inter Milan er komið áfram í sextán liða úrslit Meistaradeildarinnar þrátt fyrir að leikur liðsins í kvöld sé ekki hafinn. Lille tryggði Inter farseðilinn með því að vinna 2-0 sigur á CSKA Moskvu í dag.
Bæði mörk Lille komu í seinni hálfleiknum, það fyrra var sjálfsmark Vasily Berezutsky en það seinna gerði Moussa Sow. Rússarnir söknuðu Seydou Doumbia sem var í banni en hann hafði skorað bæði mörkin í fyrri leik liðanna.
Þetta var fyrsti sigur Lille í riðlinum en franska liðið var aðeins búið að fá tvö stig út úr fyrstu fjórum leikjum sínum. Inter Milan mætir Trabzonspor á eftir en ítalska liðið er nú með fjögurra stiga forystu á Trabzonspor og CSKA Moskvu.
