Fótbolti

Landsliðsskórnir á hilluna þrátt fyrir að vera bara 24 ára gamall

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Kevin-Prince Boateng.
Kevin-Prince Boateng. Mynd/Nordic Photos/Getty
Kevin-Prince Boateng hefur gefið það út að hann sé hættur að gefa kost á sér í landslið Gana en það er bara rúmt ár síðan að þessi 24 ára leikmaður skipti um FIFA-ríkisborgararétt til þess að geta spilað með Gana á HM í Suður-Afríku.

Boateng náði að spila níu landsleiki og skora eitt landsliðsmark á þessum átján mánuðum en áður hafði hann leikið með 19 ára landsliði Þjóðverja. Eina markið kom í 2-1 sigri á Bandaríkjunum í 16 liða úrslitunum á HM í Suður-Afríku.

Kevin-Prince Boateng er fæddur í Þýskalandi en móðir hans er þýsk og faðir hans er frá Gana.

„Knattspyrnusamband Gana fékk bréf frá leikmanninum Kevin-Prince Boateng þar sem kom fram að hann gæfi ekki lengur kost á sér í landslið Gana," sagði í yfirlýsingu frá Knattspyrnusamband Gana.

„Kevin gaf upp þá ástæðu að líkamlegt álag væri of mikið að spila bæði fyrir félagslið og landslið og það sé farið að koma niður á heilsu hans," stóð ennfremur í umræddri yfirlýsingu.

Kevin-Prince Boateng hefur skoraði 3 mörk í 5 leikjum með AC Milan á þessu tímabili og þau komu öll í sama leiknum er hann kom inn á í hálfleik í 4-3 útisigri á Lecce.

Fjarvera Boateng er áfall fyrir Gana sem er að fara taka þátt í Afríkumótinu í byrjun næsta árs. Miðjumennirnir  Emmanuel Agyemang Badu, Kwadwo Asamoah, Andre Ayew, Sulley Muntari og að sjálfsögðu Michael Essien gefa hinsvegar enn kost á sér í landsliðið.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×