Karlalið ÍR í körfubolta hefur fundið eftirmann Brandon Bush sem var látinn fara á dögunum. Nýi bandaríski leikmaðurinn hjá liðinu heitir Williard Johnson, er 204 sm á hæð og spilar sem framherji.
„Hann er gamall skólabróðir Jimmy Bartolotta úr MIT og þeir eru bestu vinir," sagði Gunnar Sverrisson, þjálfari ÍR, um nýja Bandaríkjamanninn sinn. Jimmy Bartolotta ákvað á dögunum að taka annað tímabil með ÍR-liðinu en hann var einn allra besti leikmaður Iceland Express deildarinnar í fyrra.
„Það er endalaust og skemmtilegt happadrætti að finna góða Ameríkana. Ég var einstaklega heppinn með Jimmy í fyrra og það er gott á þessum tímapunkti að geta fundið mann sem fær góð meðmæli," segir Gunnar en Johnson var með 17,1 stig og 7,1 frákast að meðaltali á lokaári sínu í MIT-háskólanum.
„Hann er 204 sm alhliðaleikmaður sem spilar þrist eða fjarka. Hann er í fínu formi og var að spila á Kosta Ríka undanfarna fimm mánuði," sagði Gunnar Sverrisson og bætir við „Hann var líka fyrirliði í MIT öll fjögur árin og er mikill leiðtogi," segir Gunnar.
Það spillir ekki fyrir að Williard Johnson þykir skemmtilegur í hóp og það verður því gaman á æfingum ÍR-inga í Seljaskólanum í vetur.
„Hann er mikill trúður og mikill fjörkálfur. Við hlæjum alveg nógu mikið á æfingunum en það er alltaf gott að bæta við skemmtilegum einstaklingum í hópinn," sagði Gunnar að lokum.
Þór Þorl.
ÍR