Ingi Þór Steinþórsson þjálfari Snæfells var alls ekki sáttur við frammistöðu deildarmeistaranna frá síðustu leiktíð þrátt fyrir góðan sigur á Haukum 89-93 á útivelli í kvöld.
„Við vorum algjörlega með allt niður okkur. Vorum á hælunum, þungir og áhugalausir. Ég er virkilega ósáttur við framkomu lykilmanna. Jón Ólafur var ekki í réttum stuttbuxum og hann funkeraði ekki,“ sagði hreinskiptinn Ingi Þór eftir leikinn.
„Við misstum ekki trúna þó þeir kæmust níu stigum yfir. Við héldum okkur við svæðið sem við skiptum í og fórum að frákasta upp úr því og fengum hraðaupphlaup. Ég er stoltur og ánægður með sjálfan mig að hafa ekki skipt aftur yfir í maður á mann þegar þeir komust í níu stig heldur hafa trú á því sem við vorum að gera. Tvö stig, mjög dýrmæt,“ sagði Ingi Þór.
Snæfell tapaði boltanum 20 sinnum í leiknum og virtust á köflum ætla að kasta leiknum frá sér án þess að Haukar pressuðu á þá.
„Við töpuðum boltanum mikið án pressu. Hugarfarið hjá mönnum var ekki í lagi og Haukar eru með fínt körfuboltalið. Þetta er flinkir strákar. Örn og Davíð voru að hitta vel úr lyklinum og við réðum ekkert við það og vorum algjörlega á hælunum. Það var ekkert annað í stöðunni en að skipta um vörn,“ sagði Ingi Þór sem segir liðið eiga töluvert í land.
„Við erum ekki með liðið þar sem við viljum hafa það. Það er enginn liðsbragur á þessu. Ég er ekki ánægður með liðið og spilamennskuna. Ég hef áhyggjur af þessu þangað til það kemur í lag. Þó ég sé ánægður með hvernig við unnum leikinn, þetta hlýtur að efla menn, en ég er ekki ánægður með hvernig við vorum á hælunum. Ég er mjög óánægður með það en það er mér að kenna,“ sagði léttur Ingi Þór að lokum.
Körfubolti