Brasilíski sóknarmaðurinn, Neymar, er samkvæmt fjölmiðlum ytra á leiðinni til Real Madrid eftir Ólympíuleikana í London á næsta ári. Neymar mun skrifa undir samning við spænska stórveldið á þriðjudaginn og koma til félagsins eftir tímabilið.
Leikmaðurinn var harðlega orðaður við enska knattspyrnufélagið Chelsea í sumar og jafnvel talið að hann myndi fara til þeirra bláklæddu í janúar 2012.
Fjölmiðlar í Brasilíu segja að leikmaðurinn hafi nú þegar staðist læknisskoðun og ekkert standi því í vegi fyrir að hann skrifi undir hjá Real Madrid.
Kaupverðið hefur ekki verið gefið upp, en það mun að öllum líkindum vera yfir 40 milljónir evra.

