Nú er búist við því að sveitastjórnir sem lögðu peninga inn á reikninga íslenskra banka í Bretlandi fyrir bankahrun muni fá um 90% af fé sínu til baka. Þetta kemur fram á vef Financial Times í dag.
FT segir aftur á móti að tap sveitastjórnanna verði meira ef Hæstiréttur mun snúa við dómi Héraðsdóms Reykjavíkur um heildsöluinnlán. Samkvæmt dómi Héraðsdóms Reykjavíkur frá því í vor eru slík innlán forgangskröfur í þrotabú bankanna.
FT segir að 127 sveitastjórnir hafi átt alls 180 milljarða króna inni á reikningum hjá íslensku bönkunum. Mark Horsfield, forstjóri Arlingclose Partners, sem er ráðgjafi um 100 þessara sveitastjórnar segir að útlit sé fyrir að heimtur sveitarfélaganna verði mun betri en gert hafi verið ráð fyrir í byrjun.
Bresk sveitarfélög fá um 90% til baka
