Handboltakappinn Andri Berg Haraldsson er genginn í raðir Íslandsmeistara FH. Andri er fjórði leikmaðurinn sem gengur í raðir Fimleikafélagsins á undanförnum vikum en félagið hefur einnig misst lykilmenn í atvinnumennsku.
Andri Berg, sem skrifaði undir þriggja ára samning, hefur leikið með Fram undanfarin ár. Hann þekkir þó vel til í Hafnarfirði en hann lék með FH á árum áður. Hann spilaði mestmegnis í stöðu vinstri skyttu á síðustu leiktíð en þykir ennfremur fastur fyrir í vörninni.
Andri Berg er fjórði leikmaðurinn sem gengur til liðs við FH á skömmum tíma. Hægri skyttan Ragnar Jóhannsson, markahæsti leikmaður N1-deildarinnar í fyrra, kom til liðsins frá Selfossi og Hjalti Þór Pálmason er kominn úr Gróttu. Þá er Daníel Hansson kominn úr Stjörnunni en hann spila í hægra horninu.
Einar Andri Einarsson þjálfari Íslandsmeistaranna segist mjög ánægður með hópinn í augnablikinu. Hann reiknar með litlum breytingum á hópnum úr þessu. Óvíst sé þó hvenær Logi Geirsson verði klár í slaginn á nýjan leik eftir vélhjólaslysið sem hann lenti í á dögunum.
„Hann var búinn að æfa frábærlega í sumar og kominn í líkamlegt stand eins og var þegar hann var upp á sitt besta. Búinn að leggja sig fram við að laga öxlina. Þetta er leiðinlegt bakslag fyrir hann,“ sagði Einar Andri.
FH-ingar hafa misst máttarstólpa úr Íslandsmeistaraliði sínu undanfarnar vikur. Ásbjörn Friðriksson, Ólafur Guðmundsson og Sigurgeir Árni Ægisson eru farnir í atvinnumennsku. Þá er hornamaðurinn Benedikt Reynir Kristinsson farinn í Gróttu og markvörðurinn Sigurður Ólafsson í Val.
