Magnús Már Lúðvíksson hefur farið á kostum í hægri bakverðinum í sumar. Magnús átti stóran þátt í þriðja marki KR-inga. Magnús fékk boltann úr stuttri hornspyrnu, lék inn á teiginn og féll eftir samstuð við varnarmann Zilina.
„Það er kerfi þarna þar sem ég á að bomba honum inní. Þeir voru bara komnir í mig svo ég ákvað að taka þá á. Svo kemur varnarmaðurinn hratt á móti þannig að ég hleyp utan í hann og fæ víti," sagði Magnús Már.
Aðspurður hvort þetta hafi verið klókt hjá honum sagði Maggi:
„Það er ekki hægt að segja annað."
Allt gengur KR-ingum í hag í sumar og þeir eru ósigraðir í öllum keppnum.
„Það er svakaleg stemmning í þessu liði og mikil gæði. Það eru fáir að fara að taka okkur á þessu tempói, þ.e. ef við spilum eins og menn."
KR-ingar fögnuðu sigrinum vel í kvöld. Magnús segir liðið ekki ætla að missa sig í fagnaðarlátum í kvöld.
„Nei, við ætlum að gera það bara í október held ég. Fáum okkur eitthvað að borða saman í kvöld og svo er leikur á sunnudaginn," sagði Magnús Már sem átti fínan leik líkt og allir í KR-liðinu.
KR-ingar mæta Valsmönnum í toppslag Pepsi-deildar á sunnudaginn.

