Ofurfjárfestirinn Warren Buffett hefur gefið 1,78 milljarða dollara eða um 205 milljarða kr. til góðgerðarsamtaka. Megnið af þessari gjöf fer til Bill and Melinda Gates Foundation.
Í frétt á BBC um málið segir að Buffett hafi gefið Bill and Melinda Gates Foundation, sem rekin er af stofnanda Microsoft og konu hans, 23.31 milljón hluta í fjárfestingarfélaginu Berkshire Hathaway. Gengi þeirra var 76,5 dollarar á hlut í gærdag.
Það hefur áður komið fram að Warren Buffett ætlar sér að gefa 99% af auð sínum til góðgerðarmála. Fyrrgreind gjöf er sjötta risagjöfin sem Buffett hefur gefið frá árinu 2006. Fram að þessu hefur Buffett gefið yfir 11 milljarða dollara virði af hlutum í Berkshire Hathaway til góðgerðasamtaka.
Buffett er þriðji auðugasti maður heimsins en auður hans er metinn á um 50 milljarða dollara eða hátt í 6.000 milljarða kr.
