Wayne Rooney og Fabio da Silva voru ekki með á æfingu Manchester United í dag, daginn fyrir seinni undanúrslitaleikinn á móti þýska liðinu Schalke sem fer fram á Old Trafford á morgun.
Rooney var maðurinn á bak við 2-0 sigur í fyrri leiknum með því leggja upp fyrra markið og skora það síðara. Sir Alex Ferguson hefur ýjað að því að Dimitar Berbatov og Michael Owen verði í byrjunarliði United á morgun.
Það lítur því út fyrir að Rooney verði hvíldur á morgun fyrir stórleikinn á móti Chelsea í ensku úrvalsdeildinni um næstu helgi.
Rooney missti reyndar af samskonar æfingu fyrir leik á móti Chelsea í átta liða úrslitum Meistaradeildinni á dögunum en spilaði engu að síður leikinn. Það er því aldrei að vita hvað Sir Alex ákveður á endanum.
Brasilíumaðurinn Fabio da Silva hefur verið í byrjunarliðinu í þremur síðustu leikjum United en hann fékk högg í tapinu á móti Arsenal á sunnudaginn.
