Marín Rós Karlsdóttir, annar fyrirliða Keflavíkur, á von á skemmtilegum leikjum gegn Njarðvík í úrslitarimmu liðanna um Íslandsmeistaratitilinn í körfubolta.
Fyrsti leikurinn fer fram í Toyota-höllinni í Keflavík klukkan 16.00 í dag. „Mér líst rosalega vel á þetta og verður þetta spennandi. Njarðvík hefur aldrei komist svona langt og það er nú þegar komin brjáluð stemning í bænum fyrir þessari rimmu,“ sagði hún en viðtalið í heild sinni má sjá hér fyrir ofan.
Keflavík á þrettán Íslandsmeistaratitla að baki en Njarðvík er nýliði í úrslitarimmunni, eins og Marín segir. Hún reiknar þó ekki með að Keflavík verði með yfirburði í rimmunni. „Nei, þær unnu Hamar í undanúrslitunum og þegar það er liðið svona langt á úrslitakeppnina er ekkert auðvelt lengur. Við lítum á þær sem verðugan andstæðing.“
„Við búum vissulega að mikilli reynslu en þær hafa engu að tapa. Þær eru komnar þetta langt og við berum virðingu fyrir því.“
