Sverrir Þór Sverrisson, þjálfari kvennaliðs Njarðvíkur, segir að það hafi gefið sínum aukinn kraft fyrir oddaleikinn gegn Hamri í gær að sjá leikskrá Hvergerðinga fyrir leikinn.
Njarðvík tryggði sér sæti í lokaúrslitum úrslitakeppninnar í Iceland Express-deild kvenna með því að vinna Hamar í undanúrslitunum, 3-2. Oddaleikinn unnu Njarðvíkingar í Hveragerði í gær, 74-67.
„Rétt fyrir leik sáum við leikskrána sem Hamar hafði útbúið fyrir leikinn,“ sagði Sverrir í hádegisfréttum Bylgjunnar en hægt er að hlusta á viðtalið í heild sinni hér fyrir ofan.
„Þar auglýsir Hamar fyrsta leik liðsins gegn Keflavík í úrslitaeinvíginu. Ég sá það strax á stelpunum að þetta gaf þeim aukinn kraft, rétt fyrir leikinn.“
„Mér fannst þetta ekki fagmannlegt að gera svona lagað þegar að liðið er ekki einu sinni komið í úrslitaeinvígið. En þetta hjálpaði okkur og ég er ánægður með það.“
