Robin van Persie, leikmaður Arsenal, segist hafa orðið fyrir miklum vonbrigðum með framkomu leikmanna Barcelona í leikjum liðanna í 16 liða úrslitum Meistaradeildarinnar.
„Ég skil ekki lætin sem urðu eftir að ég braut á [Lionel] Messi. Það urðu allir svo reiðir út í mig en ég kom ekkert öðruvísi fram við hann heldur en aðra leikmenn. Það hefði enginn kvartað ef ég hefði brotið á Mascherano," sagði Robin van Persie í viðtali við De Telegraaf.
„Leikmenn Barcelona eru óþolandi nöldrarar og kvarta yfir öllu sem gerist inn á vellinum. Ég varð fyrir vonbrigðum með þá en þetta var eins og að vera að spila á móti Chelsea í ensku deildinni," skaut Van Persie á bæði Börsunga og Chelsea-menn.
„Barcelona er samt með frábært lið en þeir ættu að hætta þessu nöldri og væli. Það er orðinn gjörsamlega óþolandi að hlusta á þetta á vellinum," sagði van Persie.
Barcelona sló Arsenal út eftir að Robin van Persie fékk að líta rauða spjaldið í upphafi seinni hálfleiks í seinni leiknum.

