Sebastian Vettel hjá Red Bull vann fyrsta Formúlu 1 mót ársins á götum Melbourne í Ástralíu í dag. Hann hafði nokkra yfirburði í mótinu, eftir að hafa náð langbesta tíma í tímatökum.
Lewis Hamilton varð í öðru sæti á McLaren og Vitaly Petrov á Renault í þriðja sæti, en hann er fyrsti rússneski Formúlu 1 ökumaðurinn í sögunni. Náði sínum besta árangri í íþróttinni, en hann keppti í fyrra.
Í upphafi mótsins var mínútuþögn til að minnast fórnarlamba náttúruhamfaranna í Japan á dögunum og allir bílar voru merktir japanska fánanum og margir ökumenn með sérstakar merkingar á hjálmum sínum. Einn ökumaður er japanskur, en það er Kamui Kobayashi og ók hann með sorgarband.
Vettel var fremstur á ráslínu og náði strax forystu í mótinu og hélt Hamilton í skefjum frá upphafi til enda. Fernando Alonso á Ferrari átti aldrei möguleika á að skáka Petrov á Renault á lokaspretti mótsins og liðsmenn Renault sendu hlýjar kveðjur í sjónvarpsútsendingunni til Robert Kubica sem hvílir heima vegna meiðsla sem hann hlaut í rallkeppni. Nick Heidfeld ekur bíl Renault í stað Kubica en náði ekki markverðum árangri.
Heimamaðurinn Mark Webber náði ekki að setja mark sitt á baráttuna um verðlaunasæti, en nýliðinn Sergio Perez frá Mexíkó á Sauber náði sjöunda sæti í fyrsta móti ársins á undan liðsfélaga sínum Kobayashi.
Lokastaðan
1. Vettel Red Bull-Renault 1h29:30.259
2. Hamilton McLaren-Mercedes + 22.297
3. Petrov Renault + 30.560
4. Alonso Ferrari + 31.772
5. Webber Red Bull-Renault + 38.171
6. Button McLaren-Mercedes + 54.300
7. Perez Sauber-Ferrari + 1:05.800
8. Kobayashi Sauber-Ferrari + 1:16.800
9. Massa Ferrari + 1:25.100
10. Buemi Toro Rosso-Ferrari + 1 hringur
Bílasmiðir
1. Vettel 25 1. Red Bull-Renault 35
2. Hamilton 18 2. McLaren-Mercedes 26
3. Petrov 15 3. Renault 15
4. Alonso 12 4. Ferrari 14
5. Webber 10 5. Sauber-Ferrari 10
6. Button 8 6. Toro Rosso-Ferrari 1
7. Perez 6
Vettel hóf titilvörnina með sigri
