Björgunarsveitarmenn björguðu sextíu ára gömlum manni í nótt sem flaut á húsþakinu af húsi sínu um fimmtán kílómetrum frá bænum Fukushima.
Þegar maðurinn fannst var hann í góðu ásigkomulagi. Áður en flóðbylgjan, sem kom í kjölfar öflugs jarðskjálfta, skall á húsið hans á föstudaginn náði hann að koma sér upp á þakið á húsinu. Björgunarsveitarmenn sáu hann svo veifa rauðum fána sem hann hafði útbúið.
Manninum var flogið á spítala í þyrlu þegar hann fannst, en eins og áður segir var hann í góðu ásigkomulagi.
Staðfest hefur verið að fleiri en 1400 manns hafa látist í hamförunum og hundruða er saknað. Þá segir japanska lögreglan að tala látinna í bænum Miyagi, þar sem flóðbylgjan gekk yfir, gæti verið um 10 þúsund. Víða er rafmagnsleysi í landinu og hefur það gert björgunarstarf erfitt.
