Chelsea komst í átta liða úrslit Meistaradeildarinnar í kvöld þrátt fyrir að gera aðeins markalaust jafntefli á heimavelli á móti danska liðinu FC Kaupamannahöfn í kvöld. Chelsea fékk fjölda færa en það gekk ekkert upp fyrir framan markið.
„Allir sóknarmennirnir mínir (Torres, Anelka og Drogba) eru frábærir leikmenn en við þurfum ekki að skora mark í kvöld," sagði Carlo Ancelotti í viðtali á ITV-sjónvarpsstöðinni. Fernando Torres hefur ekki enn náð að skora fyrir Chelsea og Dorgba var að leika níunda leikinn í röð án þess að skora.
„Við fengum fullt af færum en þrátt fyrir að ná ekki að skora þá náðum við okkar markmiðum," sagði Ancelotti sem var spurður út í hverjir yrðu í framlínunni í næsta leik.
„Ég mun ákveða það fyrir hvern leik fyrir sig. Ég get gert það af því að við erum með frábæran leikmannahóp," sagði sáttur stjóri í leikslok.
