Arabískt vor í vændum? Þorvaldur Gylfason skrifar 3. mars 2011 06:15 Það er algengt viðkvæði í arabalöndum, að það sé engin tilviljun, að ekkert þeirra er lýðræðisríki. Lýðræði hentar ekki aröbum, er sagt, þar eð frjálsar kosningar hjá þeim myndu tefla auði og völdum upp í hendur ofstækismanna, sem myndu aðeins gera illt verra.Ungt fólk rís upp Þessi skoðun er oftast einbert skálkaskjól. Hitt er sennilegra, að valdsherrunum séu völdin svo föst í hendi sem raun ber vitni vegna þess, að þeir sitja óverðugir að olíulindum, sem eiga þó að lögum á hverjum stað að heita sameign og einnig samkvæmt alþjóðlegum mannréttindasáttmálum. Fjölskyldur Bens Alís, brottflúins forseta Túnis, Múbaraks fyrrum Egyptalandsforseta og Gaddafís Líbíuforseta eru hver um sig taldar „eiga" marga milljarða Bandaríkjadala á erlendum bankareikningum, sem hafa nú sumir verið frystir. Svo miklar „eignir" ríkisstarfsmanna eru berlega þýfi. Þess vegna meðal annars rís unga fólkið upp gegn einræði, kúgun og spillingu og krefst lýðræðisumbóta. Ýmislegt annað leggst á sömu sveif. Arabaþjóðirnar eru ungar að árum, þar eð konur halda áfram að hlaða niður börnum gegn vilja sínum. Um þriðjungur mannfjöldans í Alsír, Egyptalandi, Líbíu og Marokkó er undir fimmtán ára aldri á móti fjórðungi í Túnis og fimmtungi hér heima. Um 60 prósent landsmanna í arabaheiminum eru undir þrítugu. Atvinnuleysi meðal ungs fólks á aldrinum 15-24 ára er hvergi meira en í Norður-Afríku. Þriðja hvert ungmenni í Egyptalandi og Túnis er atvinnulaust á móti fjórðungi í Alsír og á svæðinu í heild. Þetta fólk gerir arabalöndin að tifandi tímasprengju. Fólkið vill vinnu og réttlæti. Það gerir sér ekki að góðu molana, sem hrjóta af allsnægtaborðum einræðisseggjanna. Vopnavald hefur haldið fólkinu niðri til þessa, en óvíst virðist nú, hvort það dugir öllu lengur. Unga fólkið gengur vopnlaust fram gegn vígvæddum hrottum á vegum stjórnvalda. Takist unga fólkinu að hrekja einræðisherra arabalandanna frá völdum einn af öðrum, eru mikil umskipti í vændum líkt og gerðist við hrun kommúnismans í Mið- og Austur-Evrópu fyrir tuttugu árum. Þá losnuðu hartnær 300 milljónir manna undan fargi, þótt kommúnistum í suðurríkjum Sovétríkjanna tækist sums staðar að halda völdum. Arabar eru nú um 360 milljónir talsins. Hér er því mikið í húfi fyrir fjölda fólks. Margt getur farið úrskeiðis, því að illþýði situr um að komast yfir olíulindirnar og bægja frá réttum eigendum þeirra.Olía og lýðræði Reynslan sýnir, að gnótt náttúruauðlinda hamlar lýðræði. Olíugnægð Sádi-Arabíu veldur því, að konungsfjölskyldan þar mun varla slaka á stjórnartaumunum eða sleppa völdum fyrr en í fulla hnefana. Sama á við um Alsír, Líbíu og önnur olíulönd í arabaheiminum og víðar. Trúarbrögð araba koma málinu ekki við. Langfjölmennasta múslimaland heims, Indónesía, var einræðisríki eins og arabalöndin, en hefur búið við lýðræði frá 1999. Af þeim umskiptum er mikil saga. Indónesía hrundi í fjármálakreppunni, sem dundi á Suðaustur-Asíu 1997-98, gengi indónesísku rúpíunnar féll um 80 prósent, og Súhartó, forseti landsins, hrökklaðist frá völdum. Hann trónar efstur á lista Transparency International yfir þjófóttustu forseta heims fyrr og síðar. Transparency telur, að Súhartó og fjölskylda hans hafi stolið 15 til 35 milljörðum Bandaríkjadala í forsetatíð hans 1967-98. Súhartó lifði til 2008, var ákærður, en slapp við dóm vegna heilsubrests. Til samanburðar er Móbútú, forseti Kongó 1965-97, talinn hafa stolið fimm milljörðum dollara, en hann skipar þriðja sæti listans. Marcos, forseti Filippseyja 1972-86, skipar annað sætið. Ímelda, ekkja hans, sem átti 2700 pör af skóm, var kjörin á þing í fyrra. Innan tíðar mun trúlega koma í ljós, hvar á listanum arabaskálkarnir Ben Alí, Gaddafí, Múbarak og aðrir lenda. Það er góð regla að styðja lýðræði bæði heima hjá sér og annars staðar. Tvískinnungur á aldrei vel við. Bandaríkjamenn bera hluta ábyrgðarinnar á ástandi arabalandanna. Ef þeir fengjust til að leggja svipaðan skatt á bensín og tíðkast í Evrópu, myndi olíuauður arabahöfðingjanna skreppa saman og andstaða þeirra gegn framsókn lýðræðisins myndi veikjast. Slíkan bensínskatt væri hægt að boða fyrir fram og leggja á smám saman, svo að fólk og fyrirtæki gætu keypt sér sparneytnari bíla, áður en bensínverð vestra næði evrópskum hæðum. Kína þyrfti að fara eins að. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Þorvaldur Gylfason Mest lesið Er leikskólinn ekki meira virði? Bryndís Björk Eyþórsdóttir Skoðun Sagan að endurtaka sig í beinni Ingibjörg Þóra Haraldsdóttir Skoðun Hvers virði eru vísindi? Heiða María Sigurðardóttir,Erna Magnúsdóttir Skoðun Hin heimtufreka kennarastétt Áslaug Pálsdóttir Ragnheiðardóttir Skoðun Halldór 25.01.2025 Halldór Þjóðarátak í umönnun eldra fólks Einar Magnússon ,Þráinn Þorvaldsson Skoðun Að hengja bakara fyrir smið Rakel Linda Kristjánsdóttir Skoðun Konungar markaðarins Eiríkur Ingi Magnússon Skoðun Hinn vandrataði vegur að starfslokum Ástríður Þórey Jónsdóttir Skoðun Þingmaðurinn og spillingin á Veðurstofunni Sigurgeir Bárðarson Skoðun
Það er algengt viðkvæði í arabalöndum, að það sé engin tilviljun, að ekkert þeirra er lýðræðisríki. Lýðræði hentar ekki aröbum, er sagt, þar eð frjálsar kosningar hjá þeim myndu tefla auði og völdum upp í hendur ofstækismanna, sem myndu aðeins gera illt verra.Ungt fólk rís upp Þessi skoðun er oftast einbert skálkaskjól. Hitt er sennilegra, að valdsherrunum séu völdin svo föst í hendi sem raun ber vitni vegna þess, að þeir sitja óverðugir að olíulindum, sem eiga þó að lögum á hverjum stað að heita sameign og einnig samkvæmt alþjóðlegum mannréttindasáttmálum. Fjölskyldur Bens Alís, brottflúins forseta Túnis, Múbaraks fyrrum Egyptalandsforseta og Gaddafís Líbíuforseta eru hver um sig taldar „eiga" marga milljarða Bandaríkjadala á erlendum bankareikningum, sem hafa nú sumir verið frystir. Svo miklar „eignir" ríkisstarfsmanna eru berlega þýfi. Þess vegna meðal annars rís unga fólkið upp gegn einræði, kúgun og spillingu og krefst lýðræðisumbóta. Ýmislegt annað leggst á sömu sveif. Arabaþjóðirnar eru ungar að árum, þar eð konur halda áfram að hlaða niður börnum gegn vilja sínum. Um þriðjungur mannfjöldans í Alsír, Egyptalandi, Líbíu og Marokkó er undir fimmtán ára aldri á móti fjórðungi í Túnis og fimmtungi hér heima. Um 60 prósent landsmanna í arabaheiminum eru undir þrítugu. Atvinnuleysi meðal ungs fólks á aldrinum 15-24 ára er hvergi meira en í Norður-Afríku. Þriðja hvert ungmenni í Egyptalandi og Túnis er atvinnulaust á móti fjórðungi í Alsír og á svæðinu í heild. Þetta fólk gerir arabalöndin að tifandi tímasprengju. Fólkið vill vinnu og réttlæti. Það gerir sér ekki að góðu molana, sem hrjóta af allsnægtaborðum einræðisseggjanna. Vopnavald hefur haldið fólkinu niðri til þessa, en óvíst virðist nú, hvort það dugir öllu lengur. Unga fólkið gengur vopnlaust fram gegn vígvæddum hrottum á vegum stjórnvalda. Takist unga fólkinu að hrekja einræðisherra arabalandanna frá völdum einn af öðrum, eru mikil umskipti í vændum líkt og gerðist við hrun kommúnismans í Mið- og Austur-Evrópu fyrir tuttugu árum. Þá losnuðu hartnær 300 milljónir manna undan fargi, þótt kommúnistum í suðurríkjum Sovétríkjanna tækist sums staðar að halda völdum. Arabar eru nú um 360 milljónir talsins. Hér er því mikið í húfi fyrir fjölda fólks. Margt getur farið úrskeiðis, því að illþýði situr um að komast yfir olíulindirnar og bægja frá réttum eigendum þeirra.Olía og lýðræði Reynslan sýnir, að gnótt náttúruauðlinda hamlar lýðræði. Olíugnægð Sádi-Arabíu veldur því, að konungsfjölskyldan þar mun varla slaka á stjórnartaumunum eða sleppa völdum fyrr en í fulla hnefana. Sama á við um Alsír, Líbíu og önnur olíulönd í arabaheiminum og víðar. Trúarbrögð araba koma málinu ekki við. Langfjölmennasta múslimaland heims, Indónesía, var einræðisríki eins og arabalöndin, en hefur búið við lýðræði frá 1999. Af þeim umskiptum er mikil saga. Indónesía hrundi í fjármálakreppunni, sem dundi á Suðaustur-Asíu 1997-98, gengi indónesísku rúpíunnar féll um 80 prósent, og Súhartó, forseti landsins, hrökklaðist frá völdum. Hann trónar efstur á lista Transparency International yfir þjófóttustu forseta heims fyrr og síðar. Transparency telur, að Súhartó og fjölskylda hans hafi stolið 15 til 35 milljörðum Bandaríkjadala í forsetatíð hans 1967-98. Súhartó lifði til 2008, var ákærður, en slapp við dóm vegna heilsubrests. Til samanburðar er Móbútú, forseti Kongó 1965-97, talinn hafa stolið fimm milljörðum dollara, en hann skipar þriðja sæti listans. Marcos, forseti Filippseyja 1972-86, skipar annað sætið. Ímelda, ekkja hans, sem átti 2700 pör af skóm, var kjörin á þing í fyrra. Innan tíðar mun trúlega koma í ljós, hvar á listanum arabaskálkarnir Ben Alí, Gaddafí, Múbarak og aðrir lenda. Það er góð regla að styðja lýðræði bæði heima hjá sér og annars staðar. Tvískinnungur á aldrei vel við. Bandaríkjamenn bera hluta ábyrgðarinnar á ástandi arabalandanna. Ef þeir fengjust til að leggja svipaðan skatt á bensín og tíðkast í Evrópu, myndi olíuauður arabahöfðingjanna skreppa saman og andstaða þeirra gegn framsókn lýðræðisins myndi veikjast. Slíkan bensínskatt væri hægt að boða fyrir fram og leggja á smám saman, svo að fólk og fyrirtæki gætu keypt sér sparneytnari bíla, áður en bensínverð vestra næði evrópskum hæðum. Kína þyrfti að fara eins að.