Ronaldo meiddist aftan í læri um leið og hann skoraði þriðja markið og eftir myndatöku í dag varð ljóst að hann verður frá keppni í tíu til fimmtán daga.
Þetta þýðir að það er ekki öruggt að hann geti verið með í seinni leiknum á móti franska liðinu Lyon í sextán liða úrslitum Meistaradeildarinnar. Liðin gerðu 1-1 jafntefli í fyrri leiknum í Frakklandi en seinni leikurinn fer fram 16. mars eða eftir tólf daga.
„Ég meiddist þegar ég skoraði þriðja markið og þetta lítur ekkert illa út. Ég vona að ég geti verið með í næsta leik," sagði Ronaldo á twitter-síðunni sinni í gærkvöldi en þessi skilaboð hans til stuðningsmanna sinna voru seinna tekin út þegar ljóst var að meiðslin voru alvarlegri en í fyrstu var talið.

Fjarvera Ronaldo ætti líka að gefa Lionel Messi tækifæri til að auka forskotið í baráttunni um markakóngstitilinn en þeir eru nú jafnir með 27 mörk.