Steven Gerrard, fyrirliði Liverpool, verður ekki með Liverpol á morgun í fyrri leiknum í sextán liða úrslitum Evrópudeildarinnar sem er á móti portúgalska liðinu Braga. Gerrard ferðaðist ekki með liðinu til Portúgal.
Gerrard meiddist á nára á æfingu fyrir leikinn á móti Manchester United á sunnudaginn en spilaði engu að síður leikinn þar sem Liverpool vann glæsilegan 3-1 sigur. Liverpool-menn vilja ekki taka áhættuna með því að nota hann á morgun.
Gerrard er aðeins búinn spila einn leik í Evrópudeildinni á tímabilinu en þá kom hann inn í hálfleik á móti ítalska liðinu Napoli á Anfield og skoraði öll þrjú mörkin í 3-1 sigri. Hann er því með þrennu að meðaltali í leik í Evrópudeildinni á tímabilinu.
Martin Kelly og Jonjo Shelvey eru líka meiddir og verða ekki með en það eru góðar líkur á því að Andy Carroll muni spila sinn fyrsta Evrópuleik á Estádio Municipal de Braga á morgun.
