Wayne Rooney átti ekki bara frábæran seinni hálfleik sjálfur í 3-2 sigri Manchester United á AC Milan í Meistaradeildinni heldur kveikti hann í félögum sínum í búningsklefanum í hálfleik.
Wayne Rooney sagðist það eftir leikinn að hann hefði reynt sína eigin útgáfu af hárblæstri stjórans Alex Ferguson í hálfleiknum. Rooney skoraði síðan tvö glæsileg skallamörk í seinni hálfleiknum og setti á svið skothríð að marki Milan.
„Ég var mjög pirraður út í margt í fyrri hálfleiknum," sagði Wayne Rooney en leikmenn Manchester United gerðu sig þá seka um hver mistökin á fætur öðrum.
„Sumir í liðinu voru ekki að vinna vinnuna sína og ég lét mína skoðun á því í ljós. Við lærðum af þessu og unnum leikinn sem ég er mjög ánægður með," sagði Wayne Rooney.
„Þetta var mjög slæm byrjun á leiknum en við gerðum síðan vel í að koma okkur aftur inn í leikinn. Við áttum fyllilega skilið að vinna þennan leik og mér fannst við vera betra liðið. Ég er vonsvikinn með að við skyldum fá á okkur þetta annað mark en 3-2 sigur á San Siro er samt frábær úrslit," sagði Wayne Rooney.
Hálfleiks-hárblásturinn kom frá Rooney en ekki Ferguson
Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
