„Ég var búinn að undirbúa mig mjög vel og náði afar góðri byrjun sem var frábært," sagði Haukamaðurinn Sigurbergur Sveinsson en hann spilaði líkt og hann væri andsetinn á fyrstu mínútum leiks Hauka og HK í Eimskipsbikarnum.
Hann skoraði fjögur fyrstu mörk leiksins og lagði grunninn að sigri Hauka í leiknum.
„Við náðum að byggja ofan á þetta fína forskot sem við náðum í upphafi. Við vorum alltaf með þá í þægilegri fjarlægð. Þetta var síðan auðveldara en ég átti von á en við slökktum bara á þeim. Þetta var virkilega góður leikur hjá okkur og undirbúningurinn skilaði sínu. Það kom aldrei annað til greina en að komast í Höllina."
Sigurbergur hefur ekki leikið úrslitaleik í Höllinni áður og hann bíður spenntur eftir að komast þangað.
„Ég held að það skemmtilegasta sem maður gerir sé að spila bikarúrslitaleik í Höllinni og það verður gaman að fá loksins að prófa það," sagði Sigurbergur en honum er alveg sama hvort Haukar mæti Val eða Gróttu í úrslitaleiknum.