Fótbolti

Þjálfari Sampdoria: Jafnast á við meistaratitilinn

Elvar Geir Magnússon skrifar
Antonio Cassano fagnar Meistaradeildarsætinu.
Antonio Cassano fagnar Meistaradeildarsætinu.
Það voru ekki bara stuðningsmenn Inter sem höfðu ástæðu til að fagna eftir lokaumferðina á Ítalíu í dag. Sampdoria er komið aftur í Evrópukeppni eftir átján ára bið en liðið endaði í fjórða sæti og verður í Meistaradeildinni næsta tímabil.

„Við áttum frábært tímabil. Sérstaklega seinni hlutinn. Leikmenn höfðu trú á verkefninu," sagði Gigi Del Neri, aðalþjálfari Sampdoria, eftir 1-0 sigur gegn Napoli. Giampaolo Pazzini skoraði markið.

„Þetta er svipuð tilfinning og að vinna meistaratitilinn. Þessi niðurstaða er langt fyrir ofan væntingar okkar. Liðsheildin gerði þetta að verkum þó við höfum vissulega menn eins og Giampaolo Pazzini og Antonio Cassano sem skoruðu mörg mikilvæg mörk."

Del Neri er orðaður við þjálfarastöðuna hjá Juventus. „Leyfið okkur að fagna þessum áfanga með stuðningsmönnum. Við höfum mikið lagt á okkur og erum ekki byrjaðir að hugsa lengra fram í tímann," sagði Del Neri.

Del Neri hefur áður reynt fyrir sér hjá stórum félögum en með slæmum árangri. Hann var rekinn frá Porto og entist ekki heilt tímabil hjá Roma.

„Þegar ég fór t il Porto reyndi ég að taka inn unga leikmenn og losa mig við þá elstu. Það var rétt ákvörðun þó margir voru ósáttir á þeim tíma. Ég tel það vera eins hvort sem maður þjálfar miðlungs lið eða stórlið. Maður þarf að vera með virðingu allra. Ég tel mig hafa sannað mig," sagði Del Neri.

Palermo var í baráttunni við Sampdoria um Meistaradeildarsætið en varð að láta sér fimmta sæti deildarinnar að góðu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×