Keflvíkingar mættu mjög ákveðnir til leiks í Stykkishólm í kvöld og skilaði það sér í sigri. Þeir náðu þar með að tryggja sér oddaleik sem fram fer í Keflavík á fimmtudagskvöld.
Guðjón Skúlason, þjálfari Keflvíkinga, var virkilega ánægður með varnarleik síns liðs. „Menn voru mjög einbeittir á það sem við þurftum að laga. Það skilaði sér. Við hikstuðum aðeins í byrjun en svo fór þetta að rúlla," sagði Guðjón.
„Við héldum forystunni frá miðjum öðrum leikhluta. Stóru strákarnir stóðu sig vel og dreifingin í liðinu var mjög góð. Það er ekki einn leikmaður sem vinnur svona leiki heldur lið," sagði Guðjón.
„Við verðum ánægðir í kvöld en svo förum við að spá í hvað við þurfum að gera til að taka dolluna á fimmtudaginn. Það verður bara gaman."