Fótbolti

Niðurlæging á Nou Camp

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Xavi fagnar marki sínu í kvöld. Nordic Photos/AFP
Xavi fagnar marki sínu í kvöld. Nordic Photos/AFP

José Mourinho mátti þola sitt fyrsta tap með Real Madrid í kvöld og tapinu í kvöld mun hann aldrei gleyma. Barcelona niðurlægði þá Madridarliðið frá fyrstu mínútu og vann verðskuldaðan stórsigur, 5-0.

Xavi kom Barca yfir á 10. mínútu og Pedro bætti marki við sjö mínútum síðar. 2-0 eftir aðeins 17 mínútur.

Yfirburðir Barcelona voru með hreinum ólíkindum og Real Madrid var eins og lélegt 3. deildarlið í höndunum á Spánarmeisturunum.

2-0 í hálfleik og þeir sem héldu að Real kæmi til baka í síðari hálfleik gátu pakkað strax saman. Barcelona hélt áfram að yfirspila Madridarliðið í síðari hálfleik og Messi lagði upp tvö mörk fyrir David Villa á 55. og 57. mínútu.

Madrid gerði aldrei neitt í leiknum og í uppbótartíma stráði varamaðurinn Jeffrén salti í sár Madridinga með því að skora fimmta markið.

Barcelona komst með sigrinum upp í toppsæti spænsku úrvalsdeildarinnar og á tvö stig á Real.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×