Snæfell er áfram í toppsæti Iceland Express deildar karla eftir tíu leiki eftir að liðið fór til Hveragerðis í gær og vann 24 stiga sigur á Hamar, 99-75. Þetta var sjöundi sigur leikur liðsins í röð í deildinni.
Snæfellingar slógu tvær flugur í einu höggi í bæjarferðinni suður því eftir leikinn brunuðu þeir á Hvítu Perluna í Austurstræti í Reykjavík og horfðu á frumsýningu heimildarmyndarinnar "Leið Okkar Allra" sem Snæfell gefur út á DVD fyrir jólin ásamt strákunum í Illusion og Leikbroti.
Myndin er um leið Snæfellsliðsins að fyrsta Íslandsmeistaratitli félagsins síðasta vor. Þetta var í fyrsta sinn sem Íslandsmeistaratitilinn í karlakörfunni fór norður fyrir Esjuna.
Heimildamyndin er 37 mínútna löng og spannar allt á síðasta ári, viðtöl og annað tengt þessum sögulega sigri Hólmara sem voru búnir að bíða lengi eftir þeim stóra og oft búnir að komast næstum því alla leið.
Aukaefni er á disknum, myndir frá síðustu leiktíð og þrír leikir eru einnig með í pakkanum; bikarúrslitaleikurinn gegn Grindavík, oddaleikurinn gegn KR í undanúrslitunum og oddaleikurinn gegn Keflavík í lokaúrslitunum.
Í myndinni er farið yfir titlana á síðasta tímabili og þar eru viðtöl við marga eins og þjálfarann Inga Þór Steinþórsson, fyrirliðann Hlyn Bæringsson, liðstjórann Rabba, Hafdísi (móður Hlyns) og marga fleiri. Það er hægt að sjá kynninga á myndinni með því að smella hér.
Það má því búast við að Ingi Þór og lærisveinar hans hafi snúið sáttir heim í Hólminn í nótt eftir velheppnaða bæjarferð.
Körfubolti