Fótbolti

Leikur Inter hrundi á síðustu sextán mínútunum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Leikmenn Inter eftir leikinn.
Leikmenn Inter eftir leikinn. Mynd/AP
Ítölsku meistararnir í Inter Milan koma með slæmt tap á bakinu inn í leikinn á móti Chelsea í Meistaradeildinni í næstu viku eftir að liðið fékk á sig þrjú mörk á síðustu sextán mínútunum á móti Catania í gær. Smáliðið vann 3-1 sigur og AC Milan getur því minnkað forskot Inter á toppnum í eitt stig.

Diego Milito kom Inter í 1-0 á 54. mínútu eftir stoðsendingu frá Samuel Eto'o og allt stefndi í að liðið myndi auka forskot sitt á toppnum þrátt fyrir að þjálfarinn Jose Mourinho væri í leikbanni og gæti ekki stjórnað liðinu í leiknum.

Maxi Lopez jafnaði hinsvegar metin fyrir Catania á 74. mínútu og Giuseppe Mascara kom liðinu í 2-1 með marki úr víti á 81. mínútu en Sulley Muntari var þá rekinn af velli fyrir að verja boltann með hendi á marklínu. Jorge Martinez skoraði síðan þriðja markið á lokamínútu leiksins.

Inter er nú með fjórum stigum meira en AC Milan en nágrannarnir eiga leik inni á heimavelli á móti Chievo á morgun. Catania er í 15. sæti deildarinnar og var sigur liðsins í gær því mjög óvæntur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×