Knattspyrnustjórinn José Mourinho hjá Inter kveðst vera pollrólegur fyrir fyrri leik liðs síns gegn Chelsea í 16-liða úrslitum Meistaradeildarinnar á San Siro-leikvanginum á miðvikudag.
Mourinho stýrði Chelsea sem kunnugt er á árunum 2004-2007 við góðan orðstír en Portúgalinn ætlar ekki að láta tengsl sín við Lundúnafélagið trufla sig í viðleitni sinni til að komast í 8-liða úrslitin.
„Auðvitað er þetta stórleikur en ég finn ekki fyrir neinni sérstakri pressu. Ég er hvorki hræddur né stressaður og lít bara á þennan leik eins og hvern annan mikilvægan leik í Meistaradeildinni," sagði Mourinho á blaðamannafundi.