Bandaríski bakvörðurinn Michael Jefferson er búinn að spila sinn síðasta leik með ÍR í Iceland Express deild karla og náði því aldrei að vinna leik í úrvalsdeildinni á Íslandi. Karfan.is segir frá því í dag að ÍR-ingar hafi sent Jefferson heim.
ÍR tapaði öllum sex deildarleikjum sínum með Jefferson innanborðs og er komið niður í bullandi fallhættu eftir að hafa unnið 5 af 11 leikjum sínum fyrir komu hans.
Jefferson var með 17,7 stig og 5,2 stoðsendingar að meðaltali í leik en hann tók líka 19,5 skot að meðaltali (hitti úr 33 af 117, 28 prósent) og tapaði 4 boltum í leik auk þess að ÍR tapaði þeim 227 mínútum sem hann spilaði með 111 stigum.
ÍR-ingar eru að leita sér að nýjum bandarískum leikmanni fyrir lokabaráttuna um að halda sæti sínu í Iceland Express deild karla og komast í úrslitakeppnina en það er stutt þarna á milli eins og staðan er í dag.
