Karlmaður á fertugsaldri fannst látinn á heimili sínu í Hafnarfirði í hádeginu í dag. Samkvæmt heimildum fréttastofu var hann með stungusár sem talið er að hann hafi hlotið í nótt. Fjölmennt lið lögreglu kom á vettvang og vinnur tæknideild nú að rannsókn málsins.
Friðrik Smári Björgvinsson, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, varðist allra frétta þegar fréttastofa náði tali af honum og vildi ekkert láta hafa eftir sér annað en að von væri á tilkynningu frá embættinu síðar í dag.