Körfuboltavefurinn Karfan.is hefur vakið athygli á frábærum tilþrifum Ólafs Ólafssonar í sigurleik á Breiðabliki í gærkvöldi. Ólafur átti þá eina flottustu troðslu tímabilsins þegar hann skilaði sóknafrákasti í körfunni að hætti þeirra bestu í NBA-deildinni.
Ólafur tók þarna sóknarfrákast af þriggja stiga skoti Guðlaugs Eyjólfssonar í lok þriðja leikhluta og tróð boltanum viðstöðulaust í körfuna yfir Jeremy Caldwell, bandarískan miðherja Blika. Hér má sjá myndband af troðslunni inn á Karfan.is.
Ólafur átti eftir að troða boltanum aftur í körfuna í fjórða leikhlutanum en hann stal þá boltanum af Jeremy Caldwell og fór einn upp í hraðaupphlaup og tróð með tilþrifum.
Ólafur átti annars frábæran leik á móti Blikum í gær en hann var með 18 stig, 9 fráköst, 5 stolna bolta og 3 varin skot í leiknum og Grindavík vann 33 stigum þann tíma sem hann var inn á vellinum. Ólafur hvíldi í 9 mínútur í leiknum og þeim tapaði Grindavík með 7 stigum.
Körfubolti