Barcelona gerði sér lítið fyrir og lagði Real Madrid, 0-2, á Santiago Bernabeau-leikvanginum í Madrid í kvöld. Sigurinn verðskuldaður enda var Barcelona betra liðið allan leikinn.
Það var sjálfur Lionel Messi sem kom Börsungum yfir á 32. mínútu. Hann fór þá í þríhyrningaspil við Xavi og lagði boltann smekklega í netið.
Pedro skoraði seinna markið á 56. mínútu og aftur var Xavi arkitektinn að markinu. Átti laglega stungusendingu á Pedro sem skoraði með skoti utan teigs.
Xavi bjó til fjölmörg önnur færi fyrir Börsunga í leiknum sem liðið nýtti ekki.
Barcelona er því komið með þriggja stiga forskot á Real Madrid á toppi spænsku deildarinnar.