Fótbolti

Inter vill ekki selja Maicon

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Maicon fagnar marki í leik með Inter.
Maicon fagnar marki í leik með Inter. Nordic Photos / AFP

Massimo Moratti, forseti Inter á Ítalíu, segir að félagið hafi engan áhuga á að selja Brasilíumanninn Maicon sem hefur verið sterklega orðaður við Real Madrid.

Jose Mourinho tók við Real Madrid í sumar en hann gerði Inter að þreföldum meisturum á síðasta tímabili. Hann er sagður vilja fá Maicon með sér til Spánar.

Moratti sagði að þessi tvö félög hefðu rætt saman en hafa ekki náð samkomulagi um kaupverð.

„Við viljum ekki selja Maicon því hann er frábær leikmaður," sagði Moratti við ítalska fjölmiðla. „Leikmaðurinn er ómissandi að mínu mati ætlum við okkur að stefna hátt. Madrídingar hafa sett sig í samband við okkur en við erum rólegir og það er Maicon líka.

Fullyrt er að Real hafi boðið 25 milljónir evra í kappann en að Inter sé ekki reiðubúið að selja hann á minna en 35 milljónir.

Einhverjar sögusagnir hafa verið á kreiki um að Xabi Alonso gæti gengið upp í kaupin en Moratti neitaði því. „Ég held að það verða engin skipti á leikmönnum."








Fleiri fréttir

Sjá meira


×