Bandaríkjamaðurinn Jim Furyk mokaði inn peningum á golfvellinum í gær. Hann vann þá Tour championship mótið og tryggði sér um leið FedEx-bikarinn.
Furyk fékk 1.35 milljónir dollara fyrir sigur á mótinu í gær og svo 10 milljón dollara bónus fyrir að vinna FedEx-bikarinn. Ágætis dagsverk það.
Mótið í gær var æsispennandi en Furyk sýndi stáltaugar er hann vippaði upp úr sandglompu á 18. holu og boltinn stöðvaðist við holuna.
Hann fagnaði síðan eins og óður maður enda rúmum 11 milljónum dollara ríkari. Menn hafa fagnað af minna tilefni.