Annað herbergi í sama húsi Bergsteinn Sigurðsson skrifar 26. nóvember 2010 09:37 Um helgina horfði ég á son minn spila fótbolta í Keflavík. Að mótinu loknu þurftum við að endasendast í Vesturbæinn. Ferðin tók 42 mínútur á löglegum hámarkshraða. Í kjölfarið fór ég að hugsa: til hvers í ósköpunum erum við með flugvöll í Reykjavík þegar það er annar flugvöllur í 40 mínútna fjarlægð? Ég bý í miðborginni en er fæddur og uppalinn á Patreksfirði. Þegar ég var barn gat ökuferðin til Reykjavíkur tekið átta til tíu klukkutíma. Nú tekur hún um fimm tíma, gæti verið enn styttri ef samgöngur í fjórðungnum væru í sómasamlegu horfi. Foreldrar mínir búa enn fyrir vestan, sem og systir mín ásamt fjölskyldu. Það heyrir til undantekninga að þau komi með flugi í bæinn. Ég reyni að fara vestur nokkrum sinnum á ári en hef ekki farið fljúgandi árum saman. Ég myndi aftur á móti ekki telja það eftir mér að skjótast eftir hraðbrautinni suður til Keflavíkur til að sækja ættingja mína á flugvöllinn. Þetta er rúntur á milli hverfa, sér í lagi í ljósi þess að til að komast í flug þurfa þeir að aka yfir tvo fjallvegi til Bíldudals. Sumir segja að innanlandsflug muni leggjast af ef flugvöllurinn fer annað. Ég á enn eftir að heyra rökin fyrir því. En ef innanlandsflug þolir á annað borð ekki 40 mínútna tilfærslu til eða frá stöndum við hreinlega frammi fyrir þeirri spurningu hvort það sé þess virði að halda því úti. Sumir segja að það sé ein af skyldum Reykjavíkur sem höfuðborgar gagnvart landsbyggðinni að halda úti flugvelli. Ímyndum okkur að þú eigir ættingja úr öðru bæjarfélagi sem fær að gista hjá þér nokkrum sinnum á ári. Þótt hann komi ekki oft krefst hann þess hins vegar að í íbúðinni sé tekið frá fyrir hann heilt herbergi með uppábúnu rúmi allan ársins hring. Þegar þú leggur til að breyta herbergi uppi á lofti í gestaherbergi, af því þú vilt nýta hitt herbergið í eitthvað annað, stappar frændi niður fótum og segir nei, það er svo langt að fara. Keflavík er í þessu samhengi bara annað herbergi í sama húsi. Það er ástæðulaust að stilla flutningi flugvallarins upp sem andstæðum hagsmunum landsbyggðar og borgar. Verði flugvöllurinn fluttur er hægt að ráðast í róttæka endurskipulagningu á borgarkerfinu með áherslu á skilvirkar almenningssamgöngur, sem gætu falið í sér meiri tímasparnað en sem nemur viðbótarakstrinum út á flugvöll. Er það svona skelfileg tilhugsun? Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Bakþankar Bergsteinn Sigurðsson Skoðanir Mest lesið Ert þú ung kona á leiðinni á landsfund? Hópur ungra Sjálfstæðiskvenna Skoðun Guðrún Hafsteins nýr leiðtogi - Sameinandi afl Jóna Lárusdóttir Skoðun Sjálfstæðisflokkurinn – Breiðfylking framtíðar Sigvaldi H. Ragnarsson Skoðun Dagur sjaldgæfa sjúkdóma 2025 Alice Viktoría Kent Skoðun Glötuðu tækifærin Guðmundur Ragnarsson Skoðun Vill ríkisstjórnin vernda vatnið okkar? Snæbjörn Guðmundsson Skoðun Látum verkin tala Sigríður María Björnsdóttir Fortescue Skoðun Tækifærin felast í hjúkrunarfræðingum Helga Rósa Másdóttir Skoðun Hagur okkar allra Steinþór Logi Arnarsson Skoðun Venjuleg kona úr Hveragerði Árni Grétar Finnsson,Björg Ásta Þórðardóttir Skoðun
Um helgina horfði ég á son minn spila fótbolta í Keflavík. Að mótinu loknu þurftum við að endasendast í Vesturbæinn. Ferðin tók 42 mínútur á löglegum hámarkshraða. Í kjölfarið fór ég að hugsa: til hvers í ósköpunum erum við með flugvöll í Reykjavík þegar það er annar flugvöllur í 40 mínútna fjarlægð? Ég bý í miðborginni en er fæddur og uppalinn á Patreksfirði. Þegar ég var barn gat ökuferðin til Reykjavíkur tekið átta til tíu klukkutíma. Nú tekur hún um fimm tíma, gæti verið enn styttri ef samgöngur í fjórðungnum væru í sómasamlegu horfi. Foreldrar mínir búa enn fyrir vestan, sem og systir mín ásamt fjölskyldu. Það heyrir til undantekninga að þau komi með flugi í bæinn. Ég reyni að fara vestur nokkrum sinnum á ári en hef ekki farið fljúgandi árum saman. Ég myndi aftur á móti ekki telja það eftir mér að skjótast eftir hraðbrautinni suður til Keflavíkur til að sækja ættingja mína á flugvöllinn. Þetta er rúntur á milli hverfa, sér í lagi í ljósi þess að til að komast í flug þurfa þeir að aka yfir tvo fjallvegi til Bíldudals. Sumir segja að innanlandsflug muni leggjast af ef flugvöllurinn fer annað. Ég á enn eftir að heyra rökin fyrir því. En ef innanlandsflug þolir á annað borð ekki 40 mínútna tilfærslu til eða frá stöndum við hreinlega frammi fyrir þeirri spurningu hvort það sé þess virði að halda því úti. Sumir segja að það sé ein af skyldum Reykjavíkur sem höfuðborgar gagnvart landsbyggðinni að halda úti flugvelli. Ímyndum okkur að þú eigir ættingja úr öðru bæjarfélagi sem fær að gista hjá þér nokkrum sinnum á ári. Þótt hann komi ekki oft krefst hann þess hins vegar að í íbúðinni sé tekið frá fyrir hann heilt herbergi með uppábúnu rúmi allan ársins hring. Þegar þú leggur til að breyta herbergi uppi á lofti í gestaherbergi, af því þú vilt nýta hitt herbergið í eitthvað annað, stappar frændi niður fótum og segir nei, það er svo langt að fara. Keflavík er í þessu samhengi bara annað herbergi í sama húsi. Það er ástæðulaust að stilla flutningi flugvallarins upp sem andstæðum hagsmunum landsbyggðar og borgar. Verði flugvöllurinn fluttur er hægt að ráðast í róttæka endurskipulagningu á borgarkerfinu með áherslu á skilvirkar almenningssamgöngur, sem gætu falið í sér meiri tímasparnað en sem nemur viðbótarakstrinum út á flugvöll. Er það svona skelfileg tilhugsun?