Innlent

Um 160 fjárnám vegna vanskila á námslánum

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Afgreiðsla Lánasjóðs íslenskra námsmanna.
Afgreiðsla Lánasjóðs íslenskra námsmanna.
Hjá lögmannsstofnunum Juris og Mandat hafa verið gerð um 160 fjárnám fyrir Lánasjóð íslenskra námsmanna frá haustinu 2008 vegna vanskila. Þetta segir í svari Katrínar Jakobsdóttur, mennta- og menningarmálaráðherra, við fyrirspurn Margrétar Tryggvadóttur, þingmanni Hreyfingarinnar.

Juris og Mandat sjá um innheimtu fyrir Lánasjóðinn ásamt Intrum samkvæmt samningi sem sjóðurinn hefur gert við þessi fyrirtæki. Í svari menntamálaráðherra kemur fram að Lánasjóðnum hafi þótt hagkvæmara að semja við innheimtuaðila um innheimtuþjónustu í stað þess að setja upp sérstaka innheimtudeild hjá sjóðnum vegna þessa. Þannig hafi lögmenn um ártugaskeið annast lögfræðilega innheimtu námslána í góðu samráði við sjóðinn.

Hins vegar sé fruminnheimta námslánanna hjá sjóðnum þar sem skuldurum sé boðin fjölþætt úrræði til þess að standa í skilum, svo sem fjögurra eða sex mánaða greiðsludreifing, undanþága frá afborgun, frysting og fleira.

Samkvæmt svari ráðherra gefur LÍN út 53.652 greiðsluseðla á ári og eru lánþegar LÍN 29.595 talsins. Um 1,5% af kröfum fara í löginnheimtu.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×