Fótbolti

73 prósent leikmanna völdu Arjen Robben bestan

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Arjen Robben.
Arjen Robben. Mynd/AFP
Hollendingurinn Arjen Robben var langbesti leikmaður þýsku úrvalsdeildarinnar að mati leikmanna í deildinni en niðurstaðan úr vali leikmannasamtakanna var tilkynnt í dag.

Arjen Robben lék frábærlega á sínu fyrsta tímabili með Bayern Munchen þar sem hann var með 16 mörk og 7 stoðsendingar í 24 leikjum í þýsku deildinni. Bayern vann tvöfalt og komst alla leið í úrslitaleik Meistaradeildarinnar.

Robben fékk yfirburðarkosningu eða 72,7 prósent atkvæða en í öðru sæti kom félagi hans hjá Bayern, Bastian Schweinsteiger með sex prósent atkvæða.

Markakóngur deildarinnar, Edin Dzeko hjá Wolfsburg, endaði síðan í 3. sætinu með 4,9 prósent atkvæða.

Thomas Muller hjá Bayern Munchen var valinn besti ungi leikmaður deildarinnar.

Bayern Munchen vann öll einstaklingsverðlaunin í þessu kjöri því Louis van Gaal var síðan kosinn besti þjálfarinn með 38,8 prósent atkvæða. Felix Magath hjá Schalke kom reyndar skammt á eftir með 38,3 prósent atkvæða.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×