Fótbolti

Marco Van Basten: Ég skil ekki af hverju Leonardo fór til Inter

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Marco Van Basten.
Marco Van Basten. Mynd/Nordic Photos/Getty
Marco Van Basten, fyrrum leikmaður AC Milan, segist líta svo á málin að Brasilíumaðurinn Leonardo hafi svikið AC Milan með því að taka við sem þjálfari erkifjendanna í Inter Milan. Leonardo tók við starfinu af Rafael Benitez sem var rekinn en áður hafði Leonardo fengið sparkið hjá AC Milan.

„Ég hef ekkert á móti Inter en það er bara ekki rétt að yfirgefa Rossoneri-fjölskylduna og ganga til liðs við Nerazzurri-fjölskylduna. Mér sjálfum myndi líða eins og ég væri að svíkja vini mínum. Ég skil ekki af hverju Leonardo fór til Inter," sagði Marco Van Basten en bætti síðan við: „Hann fór reyndar frá AC Milan undir slæmum kringumstæðum en það gerði ég ekki."

Marco Van Basten hrósaði líka Svíanum Zlatan Ibrahimovic sem hefur verið líkt við Hollendinginn eftir frábæra frammistöðu sína með AC Milan liðinu.

„Þetta er nýtt lið og það er fullt af hæfileikaríkum leikmönnum í liðinu. Liðið þarf samt að bæta sig enn frekar ef að það ætlar að fara að vinna á Ítalíu og í Evrópu. Ég var sannfærður um að Ibrahimovic myndi standa sig vel alveg eins og hann gerði hjá Juventus og Inter," sagði Van Basten.

„Hann stóð sig meira segja vel á Spáni þrátt fyrir að liðið spilaði fótbolta sem hann er ekki vanur að spila og að hann lenti í útistöðum við þjálfarann," sagði Van Basten en Zlatan Ibrahimovic hefur skorað 13 mörk og gefið 9 stoðsendingar í 20 leikjum í öllum keppnum á sínu fyrsta tímabili með AC Milan.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×