Tvítugur björgunarsveitarmaður, Ásmundur Þór Kristmundsson, drýgði hetjudáð í gær þegar hann óð út í Krossá í Þórsmörk til þess að bjarga tveimur frönskum ferðamönnum sem höfðu fest í lítilli bifreið í ánni.
Ásmundur festi sig í reipi sem hann batt við bíl á árbakkanum og óð út í ána. Síðan tók hann á karlinum í bílstjórasæti bifreiðarinnar og bar út í ána. Ferðamenn sem voru á árbakkanum drógu mennina svo í land en Ásmundur fór á kaf og var nærri því að drukkna. Í losti og hríðskjálfandi stakk hann sér svo aftur út í ána og náði í konuna sem enn var í bifreiðinni.
Þegar þau höfðu verið dregin að árbakkanum tókst honum að kasta konunni upp á bakkann en féll sjálfur út í ána þar sem hann lá í nokkrar sekúndur áður en hann var dreginn upp og hneig svo hálf meðvitundarlaus niður á árbakkann.
„Þetta var fáránleg upplifun," sagði Ásmundur þegar Fréttablaðið náði tali af honum í gærkvöldi. „Ég er enn þá bara að átta mig á hlutunum."
Spurður um hvernig þetta bar að sagði Ásmundur: „Ég og kærastan mín vorum að labba í átt að Húsadal þegar við hittum ferðamenn sem voru öskrandi og á hlaupum í átt að Krossá. Við vorum ekki alveg með á nótunum þannig að við eltum bara fólkið að ánni. Þá sáum við lítinn Suzuki-bíl fljótandi í ánni og hann flaut þarna einhver hundruð metra áður en hann festist. Ég stóð síðan þarna á árbakkanum merktur Landsbjörg og fannst ég ekki geta annað en hjálpað. Ég batt þá reipi utan um mig og festi við bíl sem var þarna og óð út í ána," segir Ásmundur.
Ásmundur hafði nokkurn veginn jafnað sig um tíuleytið í gærkvöldi og kvað Frakkana vera í losti en himinlifandi með björgunina.- mþl