Teitur Örlygsson stjórnaði Stjörnumönnum til sigurs í Njarðvík í kvöld og var þetta í fyrsta skiptið sem hann vinnur í Ljónagryfjunni sem þjálfari aðkomuliðs. Hörður Magnússon lýsti leiknum á Stöð Sport og hann talaði við Teit eftir leikinn.
„Við fórum illa að ráði okkar í fyrsta leiknum. Menn voru staðir og það var eitthvað úrslitakeppnisstress í mönnum. Þegar menn komust framhjá mönnum þá stóðu hinir og földu sig sérstaklega á móti svæðisvörninni. Í svæðisvörn viltu hlaupa í opnum svæðin og við gerðum það miklu betur í þessum leik. Það var engu breytt, við vorum með sömu leikkerfi en við gerðum hlutina miklu betur," sagði Teitur.
Njarðvík vann upp fimmtán stiga forskot Stjörnunnar í þriðja leikhluta og náði þá að jafna leikinn.
„Njarðvík kom inn í þriðja leikhluta og hitti úr einhverjum sex til átta skotum í röð með mann í sér. Þeir voru að skora yfir menn sem voru að spila fanta vörn og þú stoppar svoleiðis ekkert. Það var frábær leikhluti hjá Njarðvíkingunum en ég hafði fulla trú á því að þeir myndu ekki hitta svona annan leikhlutann í röð," sagði Teitur.
„Það er frábært að vera komnir með heimavallarréttinn aftur. Ég er rosalega þakklátur fyrir það hvað mætti mikið af Stjörnufólki á þennan leik því ég held að það hafi ekki mætt svona margir á heimaleik í vetur. Þetta er kannski það sem koma skal," sagði Teitur.
„Þetta lið hefur spilað vel í stóru leikjunum síðan að ég tók við því og við höfum náð því besta fram undir mikill pressu. Ég vona að það mæti fullt af fólki úr Garðabæ á fimmtudaginn og styðji okkur. Núna er þetta aftur á byrjunarreit, við getum lagað ýmsa hluti sem fóru illa í seinni hálfleik. Við notum vikuna vel og mætum flottir á fimmtudaginn," sagði Teitur að lokum.
Körfubolti