Bayern Munchen er búið að blanda sér í baráttuna um þýska landsliðsmanninn Sami Khedira sem spilar með VfB Stuttgart en sló í gegn í Heimsmeistarakeppninni í Suður-Afríku. Khedira var á leiðinni til spænska liðsins Real Madrid en það gæti nú breyst víst að besta liðið í Þýskalandi sér hann sem framtíðarmann á miðju liðsins.
Bayern Munchen var mjög hrifið af samstarfi Sami Khedira og Bastian Schweinsteiger á miðju þýska landsliðsins á HM í Suður-Afríku og nú vill félagið að Khedira leysi Mark van Bommel af þegar hollenski miðjumaðurinn hverfur á braut.
Tilboð Bayern lítur þannig út að Sami Khedira spili eitt ár til viðbótar með Stuttgart en svo muni hann koma til Bayern þegar samningur Mark van Bommel rennur út.
