Breskur ferðamaður hefur skilað aftur hraunmola sem hann tók héðan í leyfisleysi. Taldi molann uppsprettu allrar sinnar ógæfu. Molanum hefur verið skilað aftur og var flogið með þyrlu á gosstöðvarnar. Gömul þjóðtrú er tengd steinum.
Breskur ferðamaður sem var hér á ferð skömmu fyrir efnahagshrun, er sannfærður um að hraunmoli sem hann hafði með sér af landi brott sé uppspretta allrar hans ógæfu. Eftir að hann kom heim með molann varð hann fyrir ýmsum skakkaföllum, bæði í einka- og opinbera lífinu, og tengdi það molanum.
Hann sá að við svo búið máti ekki standa og sendi molann til Jarðvísindastofnunar Háskóla Íslands og bað um að honum yrði komið á tilhlýðilegan stað.

Rikke fékk steininn ásamt bréfi með útskýringum, en hefur það því miður ekki lengur undir höndum. Hún gerði gangskör að því í gær að verða við bónum um steininn og kom honum á Iceland Tourist Assistance. Þar höfðu menn samband við Norðurflug og þaðan var flogið með hann á gosstöðvarnar í gær, en þar er að finna nýjasta hraunið hér á landi.
„Það má tengja þetta þjóðtrú um steina," segir Kristinn H. Schram þjóðfræðingur. Hann segir Jón Árnason ræða um náttúrusteina í Íslenskum þjóðsögum og ævintýrum. Bæði séu til heillasteinar og óheilla og samkvæmt Jóni þurfi mikla kunnáttu og þekkingu til að nýta sér þá. Best er að tína þá á Jónsmessu.
„Á hinn bóginn má setja þetta í samhengi við trú á álagabletti. Það hefur verið gömul þjóðtrú að allt þess konar væri í eign einhverrar vættar eða álfa sem legðu reiði sína á bóndann ef hann nytjaði blettina. Það væri honum hins vegar til hagsbóta ef hann gerði það ekki."
Kristinn segir þetta tengjast náttúrufriðun sem komin sé inn í ferðaþjónustuna. „Þetta eru náttúrulega ekki nákvæm vísindi, en maður sér í þessari þjóðtrú með hvaða hætti hún er tengd náttúrufriðun, bændum og búaliði til hagsbóta. Í þessu tilfelli er þetta kannski komið yfir í ferðamennskuna þar sem svona frásagnir göfga landið."