Tugmilljónastyrkir frá Landsbankum og Kaupþingi voru lagðir inn á reikning Sambands ungra Sjálfstæðismanna. Tveir fyrrverandi formenn hreyfingarinnar koma af fjöllum. Félagið hafi verið rekið fyrir klink.
Í rannsóknarskýrslunni kemur fram að Samband ungra Sjálfstæðismanna hlaut 33,7 milljónir króna í styrk frá Landsbankanum og 8 milljónir frá Kaupþingi á árunum 2005 - 2007. Allir styrkirnir komu í stjórnartíð Borgars Þórs Einarsson sem er fyrrverandi starfsmaður Landsbankans og stjúpsonur Geir H. Haarde fyrrv. forsætisráðherra.
"Þetta passar ekki, félagið var rekið fyrir klink á þessum tíma. Þetta kemur mér í opna skjöldu," segir Borgar Þór Einarsson sem var formaður SUS á þessum tíma, spurður út í hina gríðarháu styrki til ungliðahreyfingar Sjálfstæðisflokksins.
Landsbankinn styrkir hreyfinguna um 3,7 milljónir 2005, 5 milljónir 2006 og 25 milljónir árið 2007. Kaupþing styrkir félagið um 2 milljónir 2005 og 6 milljónir 2006. Samtals eru þetta 41,7 milljóni.
Skýrsluhöfundar segja að það veki athygli að háir styrkir Landsbankans til Sjálfstæðisflokksins 2006 séu skráðir á Samband ungra sjálfstæðismanna 2006 og 2007. "Framkvæmdastjóri
Sjálfstæðisflokksins hefur staðfest að styrkirnir hafi verið
útgefnir og skráðir í bókhaldi Sjálfstæðisflokksins árið 2006 þótt sá síðari
hafi ekki borist frá bankanum fyrr en í ársbyrjun 2007 og hafi þá fyrir
mistök verið lagður inn á reikning SUS."
Ekkert er hins vegar minnst á styrkina frá árinu 2005 sem námu 5 milljónum króna.
Þórlindur Kjartansson tók við af Borgari Þór sem formaður SUS. Þórlindur starfaði hjá Landsbankanum. Spurður um hina gríðarlegu háu styrki sagði Þórlindur:
"Það er frekar að ég sé að detta niður úr flugvél en að koma af fjöllum. Þegar ég tek við sem formaður í september 2007 var félagið í mínus og við rákum það eingöngu á framlögum einstaklinga og auglýsingatekjum."