Ólafur Þ. Stephensen: Óblíð náttúra Ólafur Þ. Stephensen skrifar 16. apríl 2010 06:20 Enn á ný hafa náttúruöflin minnt Íslendinga rækilega á tilvist sína. Og reyndar rifjað upp fyrir hálfum heiminum að Íslendingar búa á meðal óútreiknanlegra eldfjalla. Hamfarir af völdum eldsumbrota hafa sett mark sitt á Íslandssöguna. Afleiðingarnar hafa stundum orðið skelfilegar, eins og í Móðuharðindunum 1783-1785 þegar fimmtungur landsmanna týndi lífi og fjórir fimmtuhlutar alls búsmala féllu. Eldgosið í Eyjafjallajökli jafnast sem betur fer ekki á við Skaftárelda, en hefur engu að síður haft áhrif á daglegt líf margra landsmanna. Næst eldfjallinu hafa hundruð manna þurft að rýma heimili sín í tvígang og munu á næstunni þurfa að búa við þá óvissu, sem fylgir stöðugum flóðum úr jöklinum á meðan gýs. Bændur hafa sums staðar orðið fyrir miklu tjóni vegna flóðanna og margir hafa áhyggjur af áhrifum öskufalls á búpening og grassprettu. Ferðaáætlanir þúsunda manna hér á landi hafa raskazt. Um alla Norður-Evrópu og víða úti um heim eru milljónir manna strandaglópar vegna öskuburðar frá Eyjafjallajökli, sem hindrar allt farþegaflug. Eldgosið á Fimmvörðuhálsi var meinlaust túristagos sem skilaði tekjum í kassa ferðaþjónustunnar en nú stefnir gosið í jöklinum hagsmunum ferðaþjónustunnar í vor og sumar í hættu. Enginn veit hversu lengi gosið mun standa. Það gætu orðið margar vikur eða mánuðir. Síðast gaus í Eyjafjallajökli með hléum í upp undir tvö ár. Haldi gosið áfram að trufla flugumferð er hætta á að margir ferðamenn taki ekki þá áhættu að bóka Íslandsferð. Hagsmunir fleiri atvinnugreina eru í húfi; þannig treysta ýmis fyrirtæki á reglulegan útflutning með flugi og vita nú ekki hvernig fer fyrir viðskiptasamböndum. Allt eru þetta að sjálfsögðu smámunir hjá mannslífunum, sem geta verið í hættu þegar eldfjöllin rumska. Æðruleysi og frábært samstarf íbúa, lögreglu, björgunarsveita og almannavarna hefur enn sem komið er orðið til þess að allir nágrannar Eyjafjallajökuls hafa komizt í öruggt skjól áður en jökulvatnið ryður sér leið frá eldfjallinu. Það er kannski svolítið viðeigandi að þegar þjóðin var í miðju kafi að meðtaka boðskap rannsóknarnefndarinnar, sem varpaði ljósi á hvernig græðgi, hégómi og vanhæfni mannanna olli efnahagslegum hamförum á Íslandi, skyldi náttúran minna svona eftirminnilega á mátt sinn. Smæð mannsins gagnvart náttúruöflunum rifjast þá kannski upp fyrir einhverjum, sem nutu þess að virðast stórir í krafti afreka sinna í fjármálaheiminum. Við skulum þó hafa hugfast að sem þjóð erum við margfalt betur í stakk búin að takast á við afleiðingar náttúruhamfara en við vorum fyrr á öldum. Og þjóðin mun standa þétt við bakið á þeim, sem glíma við afleiðingar eldgosa og flóða. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Ólafur Stephensen Mest lesið Nýr kafli í sögu ESB Michael Mann Skoðun Opið bréf til valkyrjanna þriggja Björn Sævar Einarsson Skoðun „Forðastu múslímana,“ sögðu öfgahægrimenn mér Guðni Freyr Öfjörð Skoðun Athugasemdir við eignaumsýslu Landsbanka Íslands Þorsteinn Sæmundsson Skoðun Gott knatthús veldur deilum Stefán Már Gunnlaugsson Skoðun Halldór 22.12.2024 Halldór Baldursson Halldór Skúffuskýrslan sem lifði af Linda Heiðarsdóttir Skoðun Aðildarviðræður Íslands og Evrópusambandsins Jón Frímann Jónsson Skoðun Framúrskarandi þjónusta byggir upp traust á fyrirtækjum Ingibjörg Valdimarsdóttir Skoðun Stuðlar: neyðarástand í meðferðarkerfinu Böðvar Björnsson Skoðun
Enn á ný hafa náttúruöflin minnt Íslendinga rækilega á tilvist sína. Og reyndar rifjað upp fyrir hálfum heiminum að Íslendingar búa á meðal óútreiknanlegra eldfjalla. Hamfarir af völdum eldsumbrota hafa sett mark sitt á Íslandssöguna. Afleiðingarnar hafa stundum orðið skelfilegar, eins og í Móðuharðindunum 1783-1785 þegar fimmtungur landsmanna týndi lífi og fjórir fimmtuhlutar alls búsmala féllu. Eldgosið í Eyjafjallajökli jafnast sem betur fer ekki á við Skaftárelda, en hefur engu að síður haft áhrif á daglegt líf margra landsmanna. Næst eldfjallinu hafa hundruð manna þurft að rýma heimili sín í tvígang og munu á næstunni þurfa að búa við þá óvissu, sem fylgir stöðugum flóðum úr jöklinum á meðan gýs. Bændur hafa sums staðar orðið fyrir miklu tjóni vegna flóðanna og margir hafa áhyggjur af áhrifum öskufalls á búpening og grassprettu. Ferðaáætlanir þúsunda manna hér á landi hafa raskazt. Um alla Norður-Evrópu og víða úti um heim eru milljónir manna strandaglópar vegna öskuburðar frá Eyjafjallajökli, sem hindrar allt farþegaflug. Eldgosið á Fimmvörðuhálsi var meinlaust túristagos sem skilaði tekjum í kassa ferðaþjónustunnar en nú stefnir gosið í jöklinum hagsmunum ferðaþjónustunnar í vor og sumar í hættu. Enginn veit hversu lengi gosið mun standa. Það gætu orðið margar vikur eða mánuðir. Síðast gaus í Eyjafjallajökli með hléum í upp undir tvö ár. Haldi gosið áfram að trufla flugumferð er hætta á að margir ferðamenn taki ekki þá áhættu að bóka Íslandsferð. Hagsmunir fleiri atvinnugreina eru í húfi; þannig treysta ýmis fyrirtæki á reglulegan útflutning með flugi og vita nú ekki hvernig fer fyrir viðskiptasamböndum. Allt eru þetta að sjálfsögðu smámunir hjá mannslífunum, sem geta verið í hættu þegar eldfjöllin rumska. Æðruleysi og frábært samstarf íbúa, lögreglu, björgunarsveita og almannavarna hefur enn sem komið er orðið til þess að allir nágrannar Eyjafjallajökuls hafa komizt í öruggt skjól áður en jökulvatnið ryður sér leið frá eldfjallinu. Það er kannski svolítið viðeigandi að þegar þjóðin var í miðju kafi að meðtaka boðskap rannsóknarnefndarinnar, sem varpaði ljósi á hvernig græðgi, hégómi og vanhæfni mannanna olli efnahagslegum hamförum á Íslandi, skyldi náttúran minna svona eftirminnilega á mátt sinn. Smæð mannsins gagnvart náttúruöflunum rifjast þá kannski upp fyrir einhverjum, sem nutu þess að virðast stórir í krafti afreka sinna í fjármálaheiminum. Við skulum þó hafa hugfast að sem þjóð erum við margfalt betur í stakk búin að takast á við afleiðingar náttúruhamfara en við vorum fyrr á öldum. Og þjóðin mun standa þétt við bakið á þeim, sem glíma við afleiðingar eldgosa og flóða.